Heimsókn sjávarútvegsráðherra Máritaníu 27.- 30. apríl 2003.
30. apríl 2003
Fréttatilkynning
Undanfarna þrjá daga hefur sjávarútvegsráðherra Máritaníu Ahmedou Auld Ahmedou ásamt sendinefnd verið í opinberri heimsókn í boði Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Ráðherrarnir fóru yfir ýmis mál er varða möguleika á samstarfi á milli Íslands og Máritaníu á sviði sjávarútvegs. Ahmedou fór víða og kynnti sér sjávarútvegsmálin hér á landi. Heimsótti hann Hafrannsóknastofnunina, Fiskistofu og Sjávarútvegsskóla sameinuðu þjóðanna. Þá fór ráðherrann í heimsókn í ýmis fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu eins og Brim, Samherja og Sæplast. Einnig hvoru sótt heim Hampiðjan og Sjóli en Sjóli er nú þegar með mikil umsvif á sviði sjávarútvegs í Máritaníu.
Sjávarútvegsráðherrarnir undirrituðu samning um framtíðarsamvinnu landanna á sviði sjávarútvegs. Með samningnum er íslenskum fyrirtækjum veitt tækifæri til þátttöku í sjávarútvegi við Máritaníu bæði hvað varðar veiðar, vinnslu og fjárfestingar í þarlendum fyrirtækjum. Samningurinn kveður og á um samvinnu á sviði fiskveiðistjórnunar, rannsókna, eftirlits og menntunar í sjávarútvegi. Þá var ákveðinn farvegur fyrir áframhaldandi samvinnu með því að stofnuð verður sameiginleg nefnd Íslands og Máritaníu sem ætlað er að fylgja samningnum eftir og stuðla að samstarfsverkefnum.
Sjávarútvegsráðuneytið