Ísland er innan marka Kyotobókunar
Útblástur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 7% meiri árið 2000 en árið 1990. Spár um útblástur fram til ársins 2020 benda til þess að útblástur muni ekki aukast umfram þau 10% sem Kyotobókunin heimilar á skuldbindingartímabili bókunarinnar 2008-2012.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem Ísland hefur skilað inn til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu mála hér á landi hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda og stefnumörkun til að takmarka útblástur. Þá er einnig fjallað um hver gætu orðið áhrif loftslagsbreytinga hérlendis, yfirlit gefið yfir rannsóknir og vöktun og stuðning Íslands við fátækari ríki.
Samkvæmt Kyotóbókuninni skal útblástur gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast um meira en 10% til 2012 miðað við árið 1990. Að auki er heimilt, upp að vissu marki, að telja fram sérstaklega útblástur koltvíoxíðs frá nýrri stóriðju eða stækkun eldri stóriðju sem fellur undir sérstaka ákvörðun aðildarríkjaþings loftslagssamningsins, sem hér á landi hefur verið nefnd "íslenska ákvæðið". Árið 2000 voru tvö verkefni sem uppfylla skilyrði ákvæðisins og útblástur koltvíoxíðs frá þessum verkefnum er því ekki innifalinn í heildartölum heldur talinn fram sér. Þessi verkefni voru stækkun ALCAN og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga
Í skýrslunni er gerð grein fyrir útblástursspá fram til ársins 2020. Spáin er reiknuð út fyrir tvö tilvik. Í fyrra tilvikinu er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum stóriðjuverkefnum öðrum en þeim sem þegar hafði verði ákveðið að ráðast í þegar spáin var framkvæmd. Í síðara tilvikinu er gert ráð fyrir þremur nýjum stóriðjuverkefnum (Fjarðarál í Reyðarfirði, stækkun álversins á Grundartanga og frekari stækkun ALCAN í Hafnarfirði). Í báðum tilfellum gera spár ráð fyrir að Ísland verði innan marka Kyoto-bókunarinnar. Í spánni er gengið út frá þeirri forsendu að 10% bensínnotkunar færist yfir í díselolíu vegna fyrirhugaðrar breytingar í skattlagningu á díselbílum. Þá er gert ráð fyrir að starfandi fyrirtækjum í áliðnaði takist að halda útstreymi perflúorkolefna (PFCs) í 0,22 tonnum CO2-ígilda á hvert framleitt tonn af áli og að sambærileg tala fyrir ný fyrirtæki í áliðnaði verði 0,14 tonn. Einnig er gert ráð fyrir að olíunotkun á aflaeiningu minnki þó heildarafli fiskiskipaflotans muni aukast. Að síðustu er stefnt að því að auka bindingu kolefnis með ræktun. Þessar forsendur eru í samræmi við stefnumörkun íslensku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem samþykkt var í mars 2002.
Úttektarnefnd á vegum samningsins er væntanleg til Íslands í september sem mun fara yfir þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni og framfylgd stefnumörkunar Íslands í loftslagsmálum.
Skýrslan sem er aðeins gefin út á ensku er aðgengileg hér á PDF formi.