Styrkir til framhaldsnáms í Japan
Japönsk stjórnvöld bjóða fram tvo styrki handa Íslendingum til framhaldsnáms við háskóla í Japan. Styrkur er veittur til tveggja ára til þeirra sem hefja nám í apríl 2004 en til 18 mánaða til þeirra sem kjósa að hefja nám í október 2004. Flugfargjöld og skólagjöld eru greidd. Ennfremur fá styrkþegar greiddan mánaðarlegan styrk að fjárhæð 180,300 yen sem er nálægt 120 þúsund krónum, auk ákveðinnar fjárhæðar við komuna til landsins.
Umsækjendur um Monbukagakusho styrk þurfa að hafa lokið B.A. eða B.S. gráðu áður en framhaldsnámið hefst, sem á að vera á sama eða skyldu sviði. Skilyrði er að þeir séu fæddir eftir 2. apríl 1969 eða þann dag. Umsækjendum er bent á að hafa samband við japanskan háskóla sem þeir hyggjast hefja nám við og fá kennara þar til að gefa út staðfestingu á skólavist.
Sendiráð Japans hefur samvinnu við menntamálaráðuneytið og má fá umsóknareyðublöð á báðum stöðum en umsóknum þarf að skila til sendiráðsins fyrir 23. júní nk. Viðtöl við umsækjendur um þessa tvo styrki verða tekin í ágústmánuði. Nánari upplýsingar fást hjá Sendiráði Japans í síma 510-8600 eða hjá menntamálaráðuneytinu.