Hoppa yfir valmynd
9. maí 2003 Matvælaráðuneytið

Öndvegissetur í auðlindalíftækni við Háskólann á Akureyri.


Þann 6. maí 2003 undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra og Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, samkomulag um að unnið yrði að því að til verði öndvegissetur í auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Með öndvegissetri er átt við starfsemi þar sem framúrskarandi vísindaleg þekking og kröftugt rannsóknarumhverfi lætur verulega að sér kveða í eflingu vísindalegra framfara og nýsköpunar atvinnulífsins.
Auðlindalíftækni er hugtak sem hér er notað til að undirstrika þá skoðun að hagnýting íslenskra auðlinda muni í vaxandi mæli í framtíðinni byggjast á nýrri vísindalegri þekkingu á sviði líftækni og erfðavísinda. Þannig mun vinnsla, markaðssetning og sala verðmætra lífefna, erfðaupplýsinga, notkun líftæknilegra aðferða og notkun örvera sem lifa á háhitasvæðum verða uppspretta nýrrar atvinnusköpunar og efnahagslegra framfara. Ofangreind ráðuneyti vilja meta ávinning af því að stofnað verði setur á sviði auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu þess mats munu þau sameiginlega vinna að uppbyggingu setursins.

Haustið 2002 var Sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri breytt í Auðlindadeild. Innan þessarar deildar eru fjórar námsbrautir, í sjávarútvegsfræði, fiskeldi, umhverfisfræði og líftækni. Stofnun öndvegisseturs í auðlindalíftækni við Háskólann mun stórefla rannsóknarstarfsemi og kennslu bæði í líftækni og við deildina. Ef vel tekst til munu á næstu árum verða til 4 - 8 ný stöðugildi innan auðlindalíftækni. Um er að ræða sérfræðinga sem munu starfa í nánum tengslum við Háskólann á Akureyri, fyrirtæki, aðra háskóla og rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Uppbygging þekkingar á auðlindalíftækni mun auðvelda Íslendingum þátttöku í alþjóðlegu samstarfi háskóla og rannsóknastofnanna á þessu sviði og færa nýja þekkingu inn í fyrirtæki landsins.

Setrið verður staðsett í nýju rannsóknarhúsi Háskólans á Akureyri, sem gert er ráð fyrir verði tilbúið haustið 2004, og verður setrinu þar búin fyrsta flokks aðstaða. Fram að þeim tíma mun það verða hýst í húsnæði Auðlindadeildar skólans.


Nánari upplýsingar gefur:

Eyjólfur Guðmundsson, deildarforseti auðlindadeildar, s 4630951


F.h. Háskólans á Akureyri


Þorsteinn Gunnarsson, rektor

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum