Hoppa yfir valmynd
9. maí 2003 Innviðaráðuneytið

Snæfellsnesið verði umhverfisvottaður áfangastaður ferðamanna

Samgönguráðuneytið hefur samið við fimm sveitarfélög á Snæfellsnesi um að Snæfellsnes verði, fyrst svæða á Íslandi, gert að umhverfisvottuðum áfangastað ferðamanna.

Gert er ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu verði stunduð með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stefnt er að vottun Green Globe 21, alþjóðlegra samtaka um sjálfbæra ferðaþjónustu, og munu samtökin koma að vottunarferlinu.

Það eru Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Stykkishólmsbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit sem standa að verkefninu og mun undirbúningsvinna standa í 6 mánuði. Þegar undirbúningsvinnu lýkur er hægt að sækja um úttekt og fulla vottun hjá Green Globe 21.

Vegagerðin og Ferðamálaráð munu veita faglega ráðgjöf vegna verkefnisins og veita m.a. aðgang að þolmarkarannsóknum á ferðamannastöðum. Green Globe mun útvega sérfræðinga sem hafa reynslu af undirbúningi, ráðgjöf og úttekt á stórum ferðaþjónustusvæðum.

Þess má geta að Ferðaþjónusta bænda vinnur að því að afla fyrirtækjum innan samtakanna Green Globe 21 vottunar. Hólaskóli sér um úttekt á fyrirtækjunum með styrk frá samgönguráðuneytinu.

Styrkur samgönguráðuneytisins byggir að nokkru leyti á samstarfi við iðnaðarráðuneytið um eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Styrkurinn nemur alls 8,5 milljónum króna.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og bæjar- og sveitarstjórar sveitarfélaganna fimm undirrituðu samkomulagið í Stykkishólmi fimmtudaginn 8. maí 2003.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta