Fréttapistill vikunnar 29. nóv. - 5. des. 2003
Frumvarp er varðar aldurstengda örorkuuppbót lagt fram á Alþingi
Lagt var fram á Alþingi í vikunni frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar nr. 117/1993 í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 25. mars sl. og Öryrkjabandalags Íslands um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að stíga fyrsta skref til viðurkenningar á margvíslegri sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Samkvæmt frumvarpinu verður frá 1. janúar greidd mánaðarleg aldurstengd örorkuuppbót sem nemur tilteknu hlutfalli af fullum örorkulífeyri, þeim sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt 12. grein laganna og fullan slysaörorkulífeyri samkvæmt 29. grein laganna eða endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Gert er ráð fyrir að fjárhæð uppbótar miðist við þann aldur þegar einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki. Fólk á aldrinum 18 - 19 ára fær uppbót sem nemur fullum grunnlífeyri en uppbótin lækkar í þrepum eftir því sem nær dregur 67 ára aldri og fellur þá niður. Er við það miðað að þeir sem verða ungir öryrkjar fái hærra hlutfall grunnlífeyris en þeir sem verða öryrkjar síðar á ævinni enda megi gera ráð fyrir að þeir hafi tekjur úr lífeyrissjóði. Gert er ráð fyrir að eftir 1. júlí 2004 verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist við að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af því verði um 1 milljarður króna í auknar lífeyrisgreiðslur á ári.
Frumvarpið...
Fyrsta nýrnaígræðslan hér á landi
Fyrsta nýrnaígræðsla hér á landi var gerð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) í vikunni. Nýra úr lifandi gjafa var grætt í nýrnaþega með langvinna nýrnabilun. Fyrr á þessu ári var gerður samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Landspítala - háskólasjúkrahúss þar sem ákveðið var að ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum yrðu hér eftir gerðar við LSH. Tryggingastofnun ríkisins hefur árlega greitt fyrir þrjá til fimm einstaklinga sem hafa fengið nýru úr lifandi gjöfum og hafa aðgerðirnar verið gerðar við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn samkvæm samningi. Nýrnaþegar hafa yfirleitt dvalið ytra í 3 - 4 vikur að lokinni aðgerð en undirbúningur og langtímameðferð farið alfarið fram hérlendis. Aðgerðin sem gerð var á LSH í vikunni tókst vel og heilsast bæði þega og gjafa eftir atvikum vel. Að jafnaði fylgir aðgerð af þessu tagi tæplega einnar viku lega á sjúkrahúsi.
Nánar...
Upplýsingar um lyfjanotkun og lyfjakostnað
Skrifstofa lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman yfirlit um lyfsölu á árunum 1989 - 2003 þar sem annars vegar má sjá söluna miðað við verðlag hvers árs en einnig uppreiknaða miðað við vísitölu neysluverðs (ársmeðaltöl).
Lyfjamál...
Samstarfshópur um byggingu þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða í Árborg
Settur hefur verið á fót samstarfshópur um byggingu þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða í sveitarfélaginu Árborg. Hópnum er ætlað að kanna þörf fyrir slíka þjónustumiðstöð og hvar henni væri best fyrir komið. Einnig á hann að athuga rekstrargrundvöll fyrir slíkt þjónustustig. Formaður hópsins er Hrafn Pálsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Leifur Benediktsson, deildarstjóri í ráðuneytinu og fulltrúar Árborgar, þeir Ásmundur Sverrir Pálsson, forseti bæjarstjórnar og Einar Njálsson, bæjarstjóri.
Ráðleggingar vegna öryggis meðferðar með tíðahvarfahormónum
Ekki er lengur mælt með því að nota meðferð með tíðahvarfahormónum sem fyrstu meðferð til að hindra beinþynningu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Lyfjastofnunar. Þar segir að í kjölfar athugunar um alla Evrópu á hlutfalli ávinnings og áhættu meðferðar með tíðahvarfahormónum hafi lyfjastofnanir í löllum löndum EES bent læknum á að ekki sé lengur mælt með hefðbundinni meðferð með lyfjum sem innihalda eingöngu östrógen eða östrógen og gestagen sem fyrstu meðferð til að hindra beinþynningu.
Nánar...
Rafræn skráning sjúkraupplýsinga við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri
Í vikunni var undirritaður samningur milli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) og hugbúnaðarfyrirtækisins eMR um innleiðingu á sjúkraskrárkerfinu Sögu. Búnaðurinn verður settur upp á þremur deildum til að byrja með og er þetta fyrsta skrefið í þá átt að taka upp rafræna skráningu sjúkraupplýsinga við sjúkrahúsið. Í frétt á heimasíðu sjúkrahússins segir að markmiðið með þessu sé að bæta gæði heilsufarsgagna sem muni leiða til betri möguleika á úrvinnuslu t.d. í rannsóknarstörfum en einnig sem grunnur fyrir kostnaðargreiningu. Þá segir að FSA stefni að því að verða í frestu röð hvað varði uppbyggingu rafrænna upplýsingakerfum í heilbrigðisþjónustu og er nefnt að stofnunin hyggist innan tíðar vera fær um að senda læknabréf rafrænt innan tíðar, fyrst heilbrigðisstofnana í landinu.
5. desember 2003