Utanríkisráðherrafundur aðildarríkja Evrópuráðsins
Nr. 049
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Utanríkisráðherrafundur hinna 45 aðildarríkja Evrópuráðsins var haldinn í Strassborg dagana 14. og 15. maí 2003. Hörður H. Bjarnason sendiherra sat fundinn fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.
Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að tryggja skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu til að mæta stórfelldri fjölgun málaleitana til hans. Evrópuráðinu var falið að skila fullmótuðum tillögum um hagræðingu á næsta ári, þ.á m. um hugsanlegar breytingar á stofnskrá dómstólsins, um leið og grundvallarréttur einstaklinga til að sækja óhindrað mál fyrir dómstólnum verði óskertur.
Væntanlegur leiðtogafundur Evrópuráðsins var til umræðu þar sem fjallað verður um stöðu og framtíð Evrópuráðsins meðal stofnana Evrópuríkjanna. Mikilvægi ráðsins sem sameiningarafl á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkja í allri Evrópu var áréttað þar sem Mannréttindadómstóllinn gegni áfram lykilhlutverki.
Ráðherrarnir fjölluðu einnig um hlutverk Evrópuráðsins í baráttunni gegn mansali og hryðjuverkum í álfunni og hugsanlega eflda og nýja Evrópusamninga í þeim efnum. Þá var rætt um eflingu ferðafrelsis innan Evrópu sem taki tillit til ríkja sem standa utan Schengen samningsins.
Í tengslum við ráðherrafundinn undirritaði sendiherra bókun um breytingu á Evrópusamningnum um varnir gegn hryðjuverkum og viðbótarbókun við samninginn um refsiréttarleg viðurlög við spillingu.
Malta lét af formennsku í Evrópuráðinu á fundinum og mun Moldóva leiða starf Evrópuráðsins næstu sex mánuði.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. maí 2003.