Hoppa yfir valmynd
22. maí 2003 Dómsmálaráðuneytið

Um stöðu lögreglunnar í Reykjavík

Fréttatilkynning
Nr. 12/ 2003


Um stöðu lögreglunnar í Reykjavík

Vegna umræðu um fjármál lögreglunnar í Reykjavík vill dómsmálaráðuneytið taka fram að enginn niðurskurður á framlögum til lögreglunnar í Reykjavík hefur verið boðaður. Á fjárlögum þessa árs var gerð 0,3% hagræðingarkrafa til stærstu lögregluembætta landsins, sem nemur um 5 milljónum króna af tæplega 2 milljarða króna heildarframlagi til lögreglunnar í Reykjavík. Sérstakar fjárveitingar vegna rannsóknar umfangsmikilla fíkniefnamála og vopnaeftirlits á flugvöllum á fjárlögum þessa árs hafa þegar að stærstu leyti runnið til lögreglustjórans í Reykjavík og því ljóst að raunhækkun hefur orðið á fjárframlögum til lögreglustjórans í Reykjavík á þessu fjárlagaári.

Lögreglunni í Reykjavík ber eins og öðrum opinberum stofnunum, lögum og reglum samkvæmt, að halda sig innan þess fjárhagsramma sem Alþingi markar á fjárlögum hverju sinni. Fyrir liggur að embættið var rekið með um 40 m.kr. halla á síðasta ári og til að snúa þeirri þróun við var það mat yfirstjórnar embættisins að grípa þyrfti til ákveðinna aðgerða. Þær eru hins vegar mjög umfangslitlar og fyrir liggur að þær munu ekki hafa áhrif á þjónustu embættisins eða öryggi borgaranna.

Dómsmálaráðuneytið vinnur nú í samvinnu við fjármálaráðuneytið að fjárlagatillögum fyrir næsta ár, en þeirri vinnu er ekki lokið. Ekki er því tímabært að fullyrða hvaða tillögur um breytingar á fjárframlögum til löggæslu verða gerðar í frumvarpi til fjárlaga næsta árs.

Dómsmálaráðuneytið hefur ítrekað bent á í opinberri umræðu um málefni löggæslunnar að staða hennar sé sterk og traust. Fyrir liggur í opinberum gögnum að frá árinu 1997 hefur orðið um 30% raunhækkun á framlögum til löggæslu og hefur sú raunhækkun einvörðungu farið til eflingar löggæslu á ýmsum sviðum. Lögreglumönnum hefur á sama tíma fjölgað umtalsvert, meðal annars um 10% að minnsta kosti á síðustu tíu árum hjá lögreglunni í Reykjavík. Samanburður á fjölda lögreglumanna milli landa sýnir einnig að hlutfallslega eru flestir lögreglumenn á Íslandi af öllum Norðurlöndunum og á sama tíma sýna tölur að afbrotatíðni hér á landi er með því lægsta sem gerist í heiminum. Traust almennings á Íslandi til lögreglunnar er yfirgnæfandi og sýna árlegar skoðanakannanir að það vex með hverju ári.

Áberandi hefur verið í opinberri umræðu að vöxtur hafi hlaupið í embætti ríkislögreglustjóra, á kostnað löggæslu í landinu. Slíkt er fjarri sanni. Raunhækkanir sem orðið hafa á undanförnum árum á framlögum til löggæslu hafa einungis að litlu leyti runnið til embættis ríkislögreglustjóra. Þær raunhækkanir hafa farið í fjölgun lögreglumanna, t.d. við fíkniefnarannsóknir, hringinn í kringum landið, meðal annars hefur verið fjölgað um vel á annan tug fíkniefnalögreglumanna hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Sú aukning sem orðið hefur hjá embætti ríkislögreglustjóra stafar eins og áður sagði fyrst og fremst af tilflutningi verkefna sem að mati löggjafans hafa átt betur heima hjá ríkislögreglustjóra vegna þess samræmingar- og þjónustuhluterks sem hann gegnir fyrir lögregluembættin í landinu. Sá tilflutningur hefur í öllum tilvikum styrkt íslenska löggæslu til mikilla muna, eins og uppbygging fjarskiptamiðstöðvar lögreglu og umferðardeildar ríkislögreglustjóraembættsins hafa glögglega sýnt.

Allar framangreindar upplýsingar eru aðgengilegar í ítarlegri skýrslu dómsmálaráðherra um stöðu og þróun löggæslu, sem lögð var fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi. Skýrsluna í heild er unnt að nálgast á eftirfarandi veffangi: http://domsmalaraduneyti.is/interpro/dkm/dkm.nsf/pages/skyrsla_stada_og_throun_loggaeslu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
22. maí 2003.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta