Hoppa yfir valmynd
23. maí 2003 Forsætisráðuneytið

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar

Maí 2003

In English

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003

 

Skýrsla á Word sniðiStefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003 (DOC - 36Kb)

 

Undanfarin átta ár hafa einkennst af bjartsýni, framförum og bættum hag þjóðarinnar. Öflugt atvinnulíf hefur lagt grunninn að blómlegu mannlífi og sókn á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk stjórn landsmála hefur leitt af sér lengsta samfellda skeið vaxandi kaupmáttar og hagsældar í Íslandssögunni og tekist hefur að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Á grundvelli þessa og í ljósi hins mikla hagvaxtar sem framundan er skapast þjóðinni nú ótal tækifæri til að sækja fram til aukinnar velmegunar og enn betri lífskjara.

Slík framþróun er forsenda þess að tryggja megi næga atvinnu, stöðugt verðlag, efla velferðarkerfið og treysta stoðir þess. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vill enn bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu og auka skilvirkni í einstökum þáttum þess. Haldið verður áfram uppbyggingu í menntakerfinu með það að markmiði að Íslendingar skipi sér enn sem fyrr á bekk meðal fremstu þjóða heims.

Áhersla verður lögð á samheldni þjóðarinnar, víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins og samvinnu dreifbýlis og þéttbýlis um efnahagslegan stöðugleika svo markmið um frekari framfarir, uppbyggingu atvinnulífs, bættar samgöngur, menntun og öryggi borgaranna náist. Staða fjölskyldunnar í samfélaginu verður styrkt og fjölgað tækifærum foreldra til að samræma starf og fjölskyldulíf í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar sem m.a. birtist í lögum um fæðingarorlof. Með aðgerðum sínum á kjörtímabilinu hyggst ríkisstjórnin leggja grunn að frekari velferð þjóðarinnar til framtíðar.

Á árinu 2004 minnast Íslendingar tveggja merkra atburða í sögu þjóðarinnar. Hinn fyrsta febrúar það ár verða liðin eitt hundrað ár frá því Íslendingar fengu heimastjórn og fyrsti íslenski ráðherrann tók til starfa. Hinn sautjánda júní sama ár fagnar þjóðin því að sextíu ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins. Þessir merkisviðburðir í sögu þjóðarinnar minna á mikilvægi þess að hlúa að menningu og sögu hennar og jafnframt á þau miklu afrek sem undangengnar kynslóðir hafa unnið í þágu íslenskrar þjóðar.

Helstu markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu eru þessi:

  • Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með því skapast skilyrði til enn frekari vaxtar þjóðartekna og aukins kaupmáttar almennings. Jafnframt er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
  • Að viðhalda jafnvægi í fjármálum ríkisins. Ríkisfjármál munu gegna lykilhlutverki í hagstjórn á næstu árum og nauðsynlegt er að stefnumótun verði sveigjanleg með tilliti til þróunar efnahagsmála. Umbótum í ríkisrekstri verði haldið áfram til þess að draga úr kostnaði og verklag við fjárlagagerð þróað áfram til þess að styrkja afgreiðslu og framkvæmd fjárlaga. Mikilvægt er í þessu samhengi að horft verði til lengri tíma en eins árs í senn.
  • Að nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum. Á kjörtímabilinu verður m.a. tekjuskattsprósenta á einstaklinga lækkuð um allt að 4%, eignarskattur felldur niður, erfðafjárskattur samræmdur og lækkaður og virðisaukaskattkerfið tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings. Enn fremur er ætlunin að auka möguleika almennings á skattfrjálsum viðbótarlífeyrissparnaði. Skattalækkanir verði nánar ákveðnar í tengslum við gerð kjarasamninga.
  • Að stuðla að því að stjórnkerfið endurspegli breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Einkum verði horft til þess hvernig best má nýta kosti upplýsingasamfélagsins og rafrænnar stjórnsýslu til að tryggja jafnt aðgengi borgaranna að nauðsynlegum upplýsingum og þjónustu. Haldið verður áfram að styrkja lögregluna í landinu, m.a. með því að auka sýnilega löggæslu. Öryggi borgaranna verður að hafa forgang. Vinna þarf að auknu umferðaröryggi, bæði í dreifbýli og þéttbýli, m.a. með gerð mislægra gatnamóta og lýsingu vega.
  • Að tryggja að öflug samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífsins til hagsbóta fyrir neytendur. Boðinn verði út rekstur á vegum ríkisstofnana þar sem því verður komið við en jafnframt verði aðgengi og þjónusta tryggð. Sjálfstæði eftirlitsstofnana hins opinbera þarf að vera ótvírætt og tryggja þarf að starfsemi þeirra verði ekki óþarflega íþyngjandi. Á undanförnum árum hefur verið unnið að sölu á eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði. Fylgt verði eftir heimild Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands og þess gætt að sala fyrirtækisins fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína. Tryggt verður að núverandi þjónusta við almenning á þessu sviði skerðist ekki.
  • Að auka beinan stuðning við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta og frítekjumarks þeirra og áfram verði dregið úr tekjutengingu þeirra. Áfram verði stutt dyggilega við íþrótta- og æskulýðsstarf.
  • Að styrkja rannsókna- og þróunarstarf, m.a með því að auðvelda fyrirtækjum að leggja fé til þess og örva þannig frumkvöðlastarfsemi. Í samræmi við ný lög um Vísinda- og tækniráð verði unnið að markvissri uppbyggingu rannsóknastarfsemi og nýsköpun á sem flestum sviðum.
  • Að hvetja fyrirtæki og opinberar stofnanir til að vinna að jafnréttismálum. Gengist verði fyrir rannsóknum á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og áfram unnið að því að jafna launamun kynjanna.
  • Að byggja áfram á núverandi aflamarkskerfi með hóflegu veiðigjaldi við stjórn fiskveiða. Stjórnkerfi fiskveiðanna hefur verið í stöðugri endurskoðun til þess að sem víðtækust sátt megi skapast um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Áhersla verði áfram lögð á betri árangur við uppbyggingu fiskistofna og líffræðilega stjórn veiðanna. Þróunar- og rannsóknastarfi verður haldið áfram til að auka verðmæti sjávarfangs. Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu. Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.
  • Að íslenskum landbúnaði verði skapað það starfsumhverfi að hann geti séð neytendum fyrir hollum og öruggum búvörum á hagstæðum kjörum. Greininni verði sköpuð skilyrði til að nýta styrkleika sína til að takast á við aukna samkeppni, m.a. með hliðsjón af væntanlegum samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þetta verði t.d. gert með lækkun gjalda á búvöruframleiðslu, eflingu mennta- og rannsóknastofnana í landbúnaði og stuðningi við nýsköpun og nýliðun í sveitum. Þannig verði möguleikar landbúnaðarins til frekari sóknar nýttir til fulls, auk þess sem brýnt er að styrkja lífeyrisréttindi bænda og rétt þeirra til sjúkrabóta.
  • Að nýta sóknarfæri ferðaþjónustunnar eins og kostur er. Greininni verði sköpuð sambærileg rekstrarskilyrði og í samkeppnislöndunum. Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein og skapi þannig fleiri örugg og vel launuð störf.
  • Að treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar. Sérstök áhersla verði lögð á fjarnám til þess að sem flestir geti stundað nám í sinni heimabyggð. Unnið verði að uppbyggingu byggðakjarna í samræmi við byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi á síðasta kjörtímabili. Haldið verði áfram stuðningi við atvinnuþróun á landsbyggðinni og áhersla lögð á að hagsmunir landsins felast í markvissu samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar og gagnkvæmum skilningi.
  • Að lokið verði við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku. Orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Áhersla verði lögð á að saman fari nýting orkulindanna og náttúruvernd. Stefnt skal að frekari áföngum í vetnisvæðingu þjóðarinnar og að í framtíðinni byggist orkunotkun landsmanna á endurnýtanlegum orkugjöfum og verði þannig sjálfbær.
  • Að standa vörð um íslenska tungu, sögu og þjóðmenningu. Sköpuð verði frekari vaxtarskilyrði fyrir blómlegt menningarlíf. Öflugt listalíf verði aðgengilegt öllum landsmönnum og menningarstarfsemi búin viðeigandi aðstaða, til dæmis með tónlistar- og ráðstefnuhúsi í Reykjavík og menningarhúsum á landsbyggðinni. Stutt verði við kynningu á íslenskri menningu og listafólki á erlendri grund.
  • Að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Háskólanám verði eflt og fjarnám þróað í samvinnu við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi. Öflugt símenntunarkerfi verði þróað áfram í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og sérstök áhersla verði lögð á sókn á sviði starfs- og verkmenntunar. Lánasjóður íslenskra námsmanna gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Hugað verði að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána og lög um sjóðinn endurskoðuð.
  • Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur.
  • Að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, búsetu og efnahag. Nauðsynlegt er að verja fjármunum sem best og nýta kosti breyttra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja góða þjónustu, án þess að dregið verði úr rétti allra til að nota heilbrigðisþjónustu. Efla þarf heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Áfram verði unnið að aukinni þjónustu við geðfatlaða. Sérstaklega þarf að huga að börnum og unglingum með geðraskanir og þroskafrávik. Treysta þarf stuðning við fatlaða og geðsjúka, m.a. með auknu framboði á skammtímavistun og annarri stoðþjónustu. Langveikum verði gert kleift að takast á við veikindi sín með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi.
  • Að almannatryggingakerfið verði endurskoðað og einfaldað og sérstaklega verði skoðað samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóðina. Könnuð verði hagkvæmni þess að fela lífeyrissjóðunum að sjá um greiðslu elli- og örorkulífeyris almannatrygginga. Dregið verði úr skerðingum á bótum öryrkja vegna atvinnutekna og örorkulífeyrir yngri öryrkja verði hækkaður sérstaklega. Áhersla verði lögð á að tryggja sérstaklega hag þeirra öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa. Heimaþjónusta við aldraða verði aukin og unnið að því að allir geti búið sem lengst á eigin heimili. Mikilvægt er að samþætta þjónustu ríkis og sveitarfélaga við aldraða til að þjónustan nýtist sem best. Haldið verði áfram uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila.
  • Að markvisst verði unnið í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. Mótuð verði heildstæð forvarnastefna í samvinnu við lögreglu, skólayfirvöld, íþróttafélög og foreldra. Hafnað er hvers kyns eftirgjöf gagnvart fíkniefnum, innflutningi þeirra, dreifingu og notkun. Meðferðarúrræðum verði fjölgað og rík áhersla lögð á forvarnir.
  • Að Ísland haldi stöðu sinni sem forystuþjóð í umhverfismálum, m.a. í baráttunni gegn mengun hafsins. Fylgt verði eftir áformum um nýjan þjóðgarð norðan Vatnajökuls og skipulag hálendisins tekið til endurskoðunar. Unnið verði að því að auka ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í umhverfismálum.
  • Að tryggja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Ísland verði áfram virkur þátttakandi í samstarfi við aðrar þjóðir á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Sameinuðu þjóðanna. Varnarsamstarfið við Bandaríkin verði þungamiðja öryggisstefnu þjóðarinnar hér eftir sem hingað til, ekki síst í ljósi þeirrar ógnar sem heimsbyggðinni stafar af hryðjuverkum. Samskiptin við Evrópusambandið verði áfram treyst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga sem Ísland á aðild að. Fylgst verði grannt með samrunaferlinu í Evrópu og áhrifum þess á íslenska hagsmuni. Samstarfið innan Norðurlandaráðs er Íslendingum mikilvægt og sem fyrr verður lögð rækt við samstarf norrænna vina- og bræðraþjóða. Að standa áfram vörð um samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á alþjóðavettvangi, t.d. með því að auka þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga á erlendum mörkuðum. Áhersla verður lögð á eflingu íslensku friðargæslunnar og starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Ísland skipi sér framarlega í flokki þeirra þjóða sem berjast fyrir mannréttindum.

Reykjavík, 23. maí 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta