Hoppa yfir valmynd
30. maí 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 24. - 30. maí 2003

Fréttapistill vikunnar
24. - 30. maí 2003



56. þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á enda

Yfir 2000 þátttakendur, þar með taldir ráðherrar heilbrigðismála frá öllum 192 aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sátu 56. þing WHO sem haldið var í Gefn og lauk í vikunni. Á þinginu voru rædd málefni og teknar ákvarðanir sem varða framtíðarstefnu WHO í heilbrigðismálum. Meðal mikilsverðra mála sem rædd hafa verið á þinginu eru viðbrögð þjóða og samstarf þeirra þegar heilbrigðisvá á borð við HABL (heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu) steðjar að. Þá var á þinginu samþykktur alþjóðlegur sáttmáli um leiðir til að berjast gegn tóbaki og markaðssetningu þess. Fráfarandi framkvæmdastjóri WHO, Dr. Gro Harlem Brundtland sagði undirritun sáttmálans sögulegan, en hún hefur barist ötullega fyrir samþykkt hans alla sína stjórnartíð. Dr. Brundtland gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og var kjörinn eftirmaður hennar til næstu fimm ára Dr. Dr. Jong-Wook Lee frá Suður-Kóreu. Á heimasíðu WHO er samantekt yfir helstu viðburði og umræður á 56. þingi stofnunarinnar.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU WHO...

Alþjóðlegur reyklaus dagur 31. maí
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir spjótum sínum að tísku- og kvikmyndaiðnaði á alþjóðlegum reyklausum degi sem haldinn er á morgun, 31. maí. Vísað er til þess mikla fjölda sem unnt er að ná til í gegnum tísku og kvikmyndir og þar með möguleikanna til að hafa áhrif á fólk, einkum ungt fólk. Þessi iðnaður sé frjór akur fyrir tóbaksframleiðendur. Miklu skipti að framleiðendur tísku og kvikmynda hætti að draga upp eftirsóknarverða mynd af tóbaki og notendum þess.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU WHO...

Árlegur fræðslufundur landlæknisembættisins
Árlegur fræðslufundur landlæknisembættisins var haldinn 9. maí 2003, kl. 8.30 til 16.00, í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi. Til fundarins var boðið starfsfólki í heilbrigðisþjónustu til að fræðast um það sem efst hefur verið á baugi í starfi embættisins að undanförnu og það sem framundan er. Fundurinn var vel sóttur og sátu hann á annað hundrað manns. Fjölmörg erindi voru á dagskrá fundarins og má meðal þeirra nefna umfjöllun um eftirlit með lyfjaávísunum lækna, lýðheilsumál, skráningu heilbrigðisþjónustu og hvað efst er á baugi í þeim efnum, klínískar leiðbeiningar, umfjöllun um heimafæðingar, geðheilbrigði barna og margt fleira. Á heimasíðu landlæknisembættisins eru aðgengilegar glærur frá erindum sem flutt voru á fræðslufundinum.
NÁNAR...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
30. maí 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta