Hoppa yfir valmynd
3. júní 2003 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Madríd á Spáni

Nr. 055

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag var haldinn ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Madríd á Spáni. Á fundinum ræddu ráðherrar um framtíð bandalagsins og fögnuðu þeim árangri sem þegar hefði náðst í að aðlaga bandalagið og gera það betur í stakk búið til að mæta nýjum kringumstæðum og ógnum sem að steðja. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði að þótt mikilvægt væri að bandalagið tæki að sér aukið hlutverk í friðaraðgerðum utan Evró-Atlantshafssvæðisins, eins og í Afganistan og Írak, þá mætti ekki gleyma því að hlutverk Atlantshafsbandalagsins væri fyrst og fremst að standa vörð um sameiginlegar varnir bandalagsríkjanna. Utanríkisráðherra lagði ennfremur í máli sínu áherslu á mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið og samstöðu ríkjanna sem væri grundvöllur að friði og stöðugleika í Evrópu.

Þá sat utanríkisráðherra hádegisverðarfund bandalagsins með ráðherrum verðandi aðildarríkjanna sjö, þar sem hann hafði m.a. framsögu um hlutverk þessara ríkja í breyttu og stækkuðu bandalagi framtíðarinnar. Utanríkisráðherra sagði að framlag þessara ríkja yrði verulegt, ekki síst í því að efla Atlantshafstengslin og auka samstarf bandalagsins og ríkja utan þess.

Síðar í dag funda utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og ræða framtíðarfyrirkomulag samstarfsins á Balkanskaga og nauðsyn á sameiginlegu átaki NATO og ESB við endurreisn svæðisins.

Undir kvöld funda utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins með utanríkisráðherra Úkraínu og á morgun með utanríkisráðherra Rússlands. Að lokum verður haldinn fundur í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu.

Nánari upplýsinar um ofangreinda fundi er að finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins (www.nato.int), þ.á.m. yfirlýsingu fundarins.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. júní 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta