Hoppa yfir valmynd
11. júní 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nr. 15/2003. Fundur fjármálaráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi 11. júní 2003.

Fjármálaráðherrar Norðurlandanna héldu hefðbundinn vorfund sinn í dag, 11. júní í Stokkhólmi. Meðal annarra umræðuefna á fundinum voru ástand og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndunum. Meðal annars kom fram að árið 2002 var heildarhagvöxtur á Norðurlöndunum 1,6%. Þetta var heldur meira en árið 2001 en þó minna en venjulegt hefur verið á seinni árum. Hagvöxtur var mestur í Svíþjóð 1,9%. Á þessu ári er reiknað með því að dragi nokkuð úr hagvexti þegar litið er til Norðurlandanna í heild. Þannig er reiknað með 0,7% hagvexti í ár í Noregi en hann varð 1,3% í fyrra. Eins og kunnugt er er reiknað með því að hagvöxtur á Íslandi verði 2 x% í ár en í Finnlandi er áætlað að hann verði 1,8% og nokkru meiri en í fyrra.

Nú er reiknað með því að verðbólga í ár verði minni en í fyrra í öllum löndunum nema Noregi, þar sem reiknað er með því að hún aukist úr 1,3% í 2 x%.

Atvinnuleysi var hvergi minna á Norðurlöndunum í fyrra en hér á landi. Í heild voru 5,2% mannaflans í löndunum án atvinnu. Eins og löngum áður var hlutfall atvinnulausra hæst í Finnlandi 9,1% og þar næst í Danmörku 5,0%. Reiknað er með því að atvinnuleysi aukist frá fyrra ári á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi og að það verði 5,7% af mannafla á svæðinu sem heild.

Þegar horft er lengra fram í tímann er reiknað með því að hagvöxtur taki ríflegan kipp upp á við árið 2004 á öllum Norðurlöndum, þótt áætlað sé að hann verði mestur hér á landi á því ári. Reiknað er með því að verðbólga minnki nema hérlendis og í Svíþjóð og að atvinnuleysi minnki alls staðar nema í Noregi.

Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, gerði starfsfélögum sínum grein fyrir efnahagsstefnu hinnar nýju ríkisstjórnar á Íslandi. Hann fjallaði meðal annars um þær orku- og stóriðjuframkvæmdir sem framundan eru og áhrif þeirra á hagstjórn á næstu árum.

Ráðherrarnir ræddu málefni Norræna fjárfestingarbankans (NIB), einkum hugmyndir um að einfalda eiginfjárreikning bankans. Athugun á þeim málum stendur yfir.
Fundir fjármálaráðherra Norðurlandanna eru reglulegur vettvangur þeirra til að skiptast á upplýsingum um málefni ESB og Evrópska efnahagssvæðisins. Í þetta sinn var aðallega til umræðu nýlegt uppkast að nýjum sáttmála sambandsins, þar sem meðal annars er lagt til að breytingar verði gerðar á efnahagsstjórn innan þess. Ef sáttmálinn verður samþykktur eins og uppkastið liggur fyrir mun það hafa í för með sér breytingar sem snerta EES-samninginn. Litlar líkur eru þó taldar á því að uppkastið verði samþykkt í bráð.

Svíar gegna formennsku í Norðurlandasamstarfinu í ár. Meðal þeirra verkefna sem þeir hafa haft frumkvæði að er að taka til athugunar ýmsar hindranir sem eru í vegi fyrir flutningum fólks milli landa á Norðurlöndunum og öðrum samskiptum milli landanna. Markmiðið er að leita leiða til að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. Meðal þess sem fjallað var um á fundi fjármálaráðherranna voru skattareglur. Enda þótt formlegir samningar milli Norðurlandanna vegna tvísköttunar standi á gömlum merg er talið að hægt sé að bæta framkvæmd reglnanna með bættri upplýsingamiðlun og þekkingu starfsfólks í stjórnsýslunni. Verður unnið að því í ár á vegum ríkisskattstjóraembætta Norðurlandanna að gera grein fyrir hugsanlegum hnökrum í framkvæmd reglna og gerðar tillögur til úrbóta. Einnig var rætt um mun á kostnaði við færslu fjármuna milli Norðurlanda og innan landanna. Ákveðið var að skoða þetta mál frekar.

Fjármálaráðuneytinu, 11. júní 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta