Hoppa yfir valmynd
13. júní 2003 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Byggðastofnunar

13. júní 2003

Ávarp aðstoðarmanns iðnaðarráðherra á ársfundi Byggðastofnunar
Nýheimum, Höfn í Hornafirði

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Í upphafi vil ég færa fundinum kveðju Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem er stödd erlendis.


I.

Nú er rúmlega ár liðið frá því að þingsályktun um stefnu í byggðamálum, fyrir árin 2002-2005, var samþykkt á Alþingi. Í því felst að Alþingi hefur falið ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál á grundvelli tiltekinna markmiða.

Markmiðin snúast um það meginatriði að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðalaga og skapa íbúum á landsbyggðinni hagstæð búsetuskilyrði. Jafnframt eru í byggðaáætluninni settar fram tillögur um alls 22 aðgerðir til að ná fram markmiðum hennar.

Það er skemmst frá því að segja að framkvæmd byggðaáætlunarinnar er nú komin á gott skrið og hefur m.a. náðst góð samstaða við önnur ráðuneyti um framkvæmd sameiginlegra verkefna þeirra og iðnaðarráðuneytis.


II.

Fyrsta stóra verkefnið sem hrint var í framkvæmd í tengslum við byggðaáætlunina var opnun Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri í lok síðastliðins árs. Nýsköpunarmiðstöðin á að vera framvörður í nýrri atvinnusókn á landsbyggðinni þar sem megináhersla verður lögð á aukna þekkingu og hæfni í atvinnulífinu. Í þessu felst m.a. víðtæk fræðsla um frumkvöðlastarfsemi, stofnun og rekstur fyrirtækja, endurbætur á innri gerð fyrirtækja, innleiðing nýrrar tækni í nýjum og starfandi fyrirtækjum og nýsköpun á sem flestum sviðum.

Tilkoma Nýsköpunarmiðstöðvarinnar byggir á þeirri skoðun að til þess að landsbyggðin nái að þróast í takt við þarfir nútímans þurfi framfarir atvinnulífsins að grundvallast á nýrri þekkingu. Traust búseta byggist á því að til verði fjölbreytt atvinnulíf sem staðið getur undir vel launuðum störfum m.a. fyrir fólk, sem öðlast hefur háskólamenntun.


III.

Næsta verkefnið sem ýtt var úr vör í framkvæmd byggðaáætlunarinnar var samkeppnin um "rafrænt samfélag". Kannanir hafa sýnt að landsbyggðin stendur höfuðborgarsvæðinu að baki hvað varðar hagnýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækni - og er nauðsynlegt að bæta úr því. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á að styrking byggðar úti á landi er á margvíslegan hátt tengd því hvernig til tekst að þróa lausnir sem hagnýta þessa tækni - og sniðnar eru að þörfum landsbyggðarinnar. Með þetta í huga var samkeppninni um "rafrænt samfélag" komið af stað.

Í sumar verður ljóst hvaða tvö byggðarlög verða valin sem "rafræn samfélög" og hljóta þar með stuðning ríkisins til að þróa metnaðarfull verkefni sín áfram. Það er von mín að til verði öflug þróunarverkefni sem geti eflt nýsköpun atvinnulífsins, en einnig er þörf fyrir verkefni sem flýta fyrir þróun rafrænna viðskipta, stuðla að eflingu menntunar og menningarstarfsemi og bæta stöðu jaðarhópa svo dæmi séu tekin um þau fjölmörgu verkefni sem óleyst eru. Aukin hagnýting upplýsinga- og fjarskiptatækni er tvímælalaust til þess fallin að styrkja samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar, - eða öllu heldur - og í víðara samhengi - að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegu tilliti.


IV

Í febrúar undirrrituðu iðnaðarrráðherra og menntamálaráðherra samkomulag um átak til uppbyggingar menntunar og menningar á landsbyggðinni. Þetta var fyrsta samstarfsverkefnið með öðrum ráðuneytum, sem með beinum hætti lýtur að framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Samkomulagið byggist á þeirri sameiginlegu skoðun ráðuneytanna - að menntun sé undirstaða atvinnuþróunar framtíðarinnar. Þar er lögð áhersla á tengsl menntunar og menningar til eflingar atvinnulífs og nýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð.

Í kjölfarið kom samkomulag við samgönguráðuneytið um sameiginleg verkefni í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Í byggðaáætluninni er ferðaþjónustu sérstaklega getið í tengslum við sóknarfæri í atvinnumálum. Markmið samkomulagsins er að tryggja markvissa uppbyggingu og sjálfbæra þróun greinarinnar, bæta arðsemi hennar og auka samkeppnishæfni einstakra svæða.

Í samvinnu við félagsmálaráðuneytið var ákveðið að ráðast í verkefni sem gerir sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins kleift að nýta sér í auknum mæli landupplýsingakerfi í stjórnsýslu og nýta sér kosti slíkra kerfa við ákvörðunartöku, samþættingu á skráðum upplýsingum og að auðvelda aðkomu almennings að athöfnum stjórnsýslunnar.

Næsta samstarfsverkefnið tengist sjálfbærri þróun. Í byggðaáætluninni er bent á opinberar aðgerðir sem ætlað er að efla atvinnulíf og treysta byggð í landinu og stuðli jafnframt að sjálfbærri þróun samfélagsins. Á grundvelli þessa er lögð áhersla á að styrkja umhverfisstarfsemi sveitarfélaga með áherslu á Staðardagskrá 21.

Iðnaðar- og umhverfisráðuneyti munu vinna sameiginlega að verkefnum er lúta að eflingu sjálfbærrar þróunar í smærri sveitarfélögum í samræmi við áherslur byggðaáætlunarinnar. Hluti af þessu samkomulagi er þróunarverkefni um sjálfbært samfélag í Hrísey.

Síðasta samstarfsverkefnið með öðrum ráðuneytum, sem ég geri að umtalsefni að þessu sinni, lýtur að uppbyggingu öndvegisseturs í auðlindalíftækni og er það samstarfsverkefni iðnaðar-, mennta-, og sjávarútvegsráðuneyta.

Það er sameiginlegt keppikefli þessara ráðuneyta að á landsbyggðinni verði til kröftugt rannsóknarumhverfi sem taki mið af þörfum atvinnulífsins fyrir nýja vísindalega þekkingu og nýsköpun.

Verkefninu er skipt í tvo áfanga. Fyrri hlutinn, sem unnin verður á þessu ári, er forverkefni sem felur í sér margskonar greiningarvinnu og gerð viðskiptaáætlunar. Verði niðurstaða forverkefnisins jákvæð munu ráðuneytin sameiginlega vinna að því að öndvegissetrið geti orðið að veruleika.

Í hugmyndinni felst að í tengslum við Háskólann á Akureyri verði bundið í netsamstarf öll sú þekking og reynsla sem nauðsynleg er - og unnt er að ná í - til þess að byggja upp rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi á sviði auðlindalíftækni.

Markmiðið er að unnt verði að stofna til arðbærs fyrirtækjareksturs innan fárra ára sem t.d. gæti tengst sjávarlíftækni, þar sem erfðaefnið er fengið úr lífríki sjávarins - eða sem tengist landbúnaðarlíftækni þar sem t.d. erfðabreytt iðnaðarprótein væru ræktuð með hefðbundnum ræktunaraðferðum landbúnaðarins.

Þessi verkefni sem iðnaðarráðuneyti hefur ráðist í með öðrum sýna með nokkuð skýrum hætti hvaða stefnu ráðuneytið hefur tekið við framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Þau sýna að ráðuneytið vill fyrst og fremst leggja áherslu á framsækin nýsköpunarverkefni sem eru til þess fallin að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulífið auk þess að bæta menntun og félagslega afkomu íbúanna. Lykilorðið er augljóslega nýsköpun á grunni nýrrar þekkingar.


V.

Ágætu fundarmenn.
Ég get ekki lokið máli mínu á þessum ársfundi Byggðastofnunar án þess að minnast á viðkvæma stöðu sjávarbyggðanna víðsvegar um land.

Nú liggur ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir og má telja nokkuð víst að í varúðarskyni verði veiðar á hörpudiski í Breiðafirði ekki leyfðar á næsta fiskveiðiári. Þetta er í sjálfu sér eðlileg ráðgjöf, einkum í ljósi þess að um 40% af skelfiskstofninum er talinn hafa drepist í fyrrasumar. Hér er um að ræða varnaraðgerð sem hafa mun gífurleg áhrif á samfélagið í Stykkishólmi ef ekki verður unnt að bregðast við með tilhlíðilegum mótvægisaðgerðum.

Samdrátturinn í fiskvinnslu á Raufarhöfn er ekki afleiðing af breytingum í lífríki náttúrunnar eins og í Breiðafirði. Hann endurspeglar aftur á móti erfiða samkeppnisstöðu þar sem hin hefðbundna bitavinnsla á Rússafiski hefur ekki skilað viðunandi framlegð. Á Raufarhöfn eins og á Stykkishólmi standa íbúarnir frammi fyrir vanda sem ógnar stöðugleika byggðanna. Því miður eru aðstæður á þessum tveim stöðum ekki einsdæmi þó minna hafi borið á vanda annarra byggða í hinni daglegu umræðu.

Það er í sjálfu sér ekkert meginatriði hvar rætur vandans liggja, - hvort þær eru af náttúrunnar völdum - eða af viðskiptalegum toga. Meginatriðið er aftur á móti að við þurfum að geta brugðist við svona vanda með haldgóðum úrræðum þegar hann ber að garði.

Í umfjöllun síðustu daga um málefni Raufarhafnar hefur iðnaðarráðherra lagt áherslu á að ekki dugi að beita sértækum úrræðum hverju sinni sem vandi steðjar að. Þvert á móti er mikilvægt að til sé stuðningskerfi sem leyst getur úr brýnni þörf með almennum og gegnsæum ráðum. Hér er um að ræða brýnt úrlausnarefni sem vonandi verður hægt að leysa farsællega áður en langt um líður.

Ágætu aðalfundargestir.

Ein breyting verður gerð á skipan aðalmanna í stjórn Byggðastofnunar að þessu sinni.
Orri Hlöðversson bæjarstjóri í Hveragerði hverfur úr stjórn að eigin ósk.
Ég færi honum sérstakar þakkir ráðherra fyrir vel unnin störf.
Í hans stað kemur Herdís Sæmundardóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og varaþingmaður Sauðárkróks.
Henni og öðrum stjórnarmönnum óska ég velfarnaðar í sínum störfum á næsta starfsári.

Með þessum orðum lýk ég máli mínu og lýsi þennan ársfund Byggðastofnunar settann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta