Opnun íslensku sýningarinnar á Feneyjatvíæringnum
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra opnaði í dag íslensku sýninguna á alþjóðlega myndlistartvíæringnum í Feneyjum. Listamaðurinn Rúrí er fulltrúi Íslands að þessu sinni, valin af myndlistarnefnd menntamálaráðuneytisins.
Rúrí er fyrir löngu landskunn og hefur hún haldið sýningar víða um heim. Eitt þekktasta verk hennar er Regnboginn sem stendur við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verk listamannsins "Archive-endangered waters" á Feneyjartvíæringnum kallar hún gagnvirka fjöltækni-innsetningu og er óður til náttúrunnar og hugleiðing um gildi hennar í nútímanum.
Feneyjartvíæringurinn er ein virtasta og yfirgripsmesta myndlistarsýning sem haldin er á nútímalist í heiminum. Sýningin er nú haldin í fimmtugasta sinn og hafa Íslendingar tekið formlega þátt í henni frá 1984. Sýningin verður formlega opnuð á morgun og stendur til 2. nóvember í Giardini görðunum í Feneyjum.
Rúrí sýnir í íslenska sýningarskálanum sem er í eigu Byggingalistasafn Finnlands en hann var teiknaður af finnska arkitektnum Alvar Aalto.