Hoppa yfir valmynd
19. júní 2003 Matvælaráðuneytið

Harði pakkinn.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Harði pakkinn.
Ávarp á ráðstefnu um konur í atvinnulífinu
19. júní 2003.




Góðir ráðstefnugestir, til hamingju með daginn.
Þetta er í annað sinn sem námsstefnan Hamhleypur, konur í atvinnulífinu er haldin. Í fyrra sóttu um 150 konur fyrirlestra og málstofur á kvennadeginum og er ljóst að áhuginn er mikill líka núna. Eitt er víst að það eru hamhleypur í atvinnulífinu.

Það var í desember árið 1999 sem formaður Framsóknarflokksins kom að máli við mig og fór þess á leit við mig að ég tæki við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um áramót þar sem sitjandi ráðherra hyggðist draga sig út úr pólitík. Það fyrsta sem kom upp í huga mér var að nú þyrfti ég að fara að tala um um gígawattstundir. Vissulega var þetta eitthvað allt annað en ég taldi að væri í vændum þar sem ég hafði verið orðuð sterklega við félagsmálaráðuneytið. Ég hef hins vegar ekki verið hrædd við að takast á við krefjandi verkefni um dagana og því tók ég erindinu vel. Það er hins vegar ekki formaðurinn, sem ákveður hvernig ráðherraliðið er skipað heldur þingflokkurinn en hann gerir yfirleitt tillögu um ráðherraskipan.

Áhugi minn á atvinnulífinu er óendanlegur. Ég er alin upp í sveit. Faðir minn var bóndi en jafnframt oddviti. Hann var sennilega ekkert sérstaklega mikill bóndi af því að hann hafði svo mikinn áhuga á öllu öðru en búskapnum, sem minnir mig á það að það er til ágætur brandari um það að þegar danskir og íslenskir bændur eru bornir saman þá sé það þannig að það sé eingöngu hægt að tala um búskap við danska bændur en hins vegar sé hægt að tala um allt annað en búskap við íslenska bændur. Þetta er nú fyrst og fremst sagt í tilefni þess að ég var stödd í Danmörku þegar ég skrifaði þessa ræðu.
Ég lét þess getið í viðtali við Morgunblaðið þegar ég hafði tekið við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem gerðist á gamlaársdag 1999 að þetta hefði verið harðari pakki en ég hefði átt von á að fá þau jól.

Í ráðuneytinu voru upp á vegg myndir af 26 karlmönnum sem höfðu gegnt þessu starfi á undanförnum 70 árum, flestir þungir á brún á myndunum og virðulegir. Nokkrar konur höfðu að sjálfsögðu gegnt ráðherraembættum en málaflokkar þeirra voru yfirleitt mýkri og taldir (af körlum) hæfa konum betur, svo sem félags-, mennta- og heilbrigðismál.

Þessi ráðuneyti iðnaðar- og viðskipta eru með bróðurpartinn af atvinnulífinu undir sínum hatti. Má segja að það sé eins konar atvinnumálaráðuneyti fyrir utan sjávarútveg og landbúnað. Atvinnulífið er því miður enn mikill karlaheimur þó það sé nú smátt og smátt að breytast, þökk sé hamhleypum.

Ég hef nú gegnt starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í þrjú og hálft ár. Þetta er búið að vera gefandi, skemmtilegur og erilsamur tími. Mig langar eiginlega til þess að segja að þetta hafi verið alveg ótrúlega skemmtilegur tími og jafnframt hafi annríkið verið meira en auðvelt er að gera sér í hugarlund..
Það er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvernig mér hafi verið tekið þegar ég kom inn í þennan karlaheim. Í sumum atvinnugreinum, eins og t.d. orkugeiranum, eru konur vart sjáanlegar.

Sannleikurinn er sá að ég var svo vön því að vera eina konan á fundum að ég tók svo sem ekkert sérstaklega eftir því. Enda horfir maður ekki á sjálfan sig.
Ég var fyrst í því hlutverki innan samvinnuhreyfingarinnar og síðan innan Framsóknarflokksins. Þegar ég kom inn í þingflokk framsóknarmanna fyrir 16 árum hafði ekki setið kona í þingflokknum í meira en 30 ár. Það var sögð ágæt saga af því hvernig mér var tekið þegar ég steig í fyrsta skipti inn fyrir dyr. Páll Pétursson reis á fætur þegar hann sá konu koma inn fyrir þröskuldinn og sagði. "Heyrðu væna mín. Þetta er lokaður fundur, það verður skúrað á eftir" Á þeim 16 árum sem liðin eru síðan hefur tekist að vinna að jafnrétti innan flokksins þannig að það er viðunandi en baráttan heldur engu að síður áfram.

Þegar ég velti því fyrir mér núna hvernig mér hafi verið tekið af körlum í atvinnulífinu og hjá hagsmunasamtökum þá held ég að sanngjarnast sé að segja að mér hafi verið tekið vel en að menn hafi haft ákveðnar efasemdir. Karlar sem eru vanir að stjórna í atvinnulífinu eru ekki alltaf tilbúnir að respektera "einhverja kellingu"
Það má vera að ég hafi ósjálfrátt byggt upp harðari ímynd af sjálfri mér en e.t.v. var ástæða til af því að ég var alltaf að sanna mig. Ég bít illilega frá mér þegar ég met það svo að ég sé á einhvern hátt gengisfelld á grundvelli kynferðis. Auðvitað hefur það komið fyrir en ég met mjög mikils hversu vel mér var tekið í ráðuneytinu af starfsfólkinu. Þar var og er ráðuneytisstjórinn karl og sama er að segja um alla skrifstofustjórana. Síðan ég kom í ráðuneytið hafa margar konur verið ráðnar inn í ráðuneytið, sem ég trúi að muni vinna sig upp en það einfaldlega tekur tíma.

Það er ýmislegt sem á dagana hefur drifið. Íranir sem komu í heimsókn í ráðuneytið neituðu að taka í höndina á kvenráðherra. Aumingja mennirnir þurftu síðan sama dag að fara í umhverfisráðuneytið.
Þegar maður upplifir svona uppákomur verður manni hugsað til þess hversu hræðilegt ástand er víða um heim í jafnréttismálum. Miðað við þessi ósköp þá erum við í góðum málum hér á Íslandi. Það sem ég bind miklar vonir við er að augljóslega ríkir mikið meira jafnrétti á milli kynjanna hjá þeirri kynslóð, sem kemur næst á eftir minni, þ.e.a.s. 68 kynslóðinni.

Staða kvenna.
Þrátt fyrir að gríðarlega margt hafi áunnist þá er því ekki að neita að það eru enn afar fáar konur í framvarðarsveit íslensks atvinnulífs. Það þarf ekki annað en að líta í kringum sig á aðalfundum Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs til að sjá það. Nema konurnar sækist ekki eftir að mæta á skrautfundi og vinni í staðinn. En á skrautfundum karlanna myndast tengslanet sem síðan er óspart notað til að koma sér og sínum á framfæri.

Þegar tölur eru skoðaðar sést að engin kona er í forsvari fyrir neitt þeirra 64 fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni, konur eru skráðir eigendur 18% fyrirtækja í landinu, konur eru 30% þeirra sem birtast á sjónvarpsskjám landsamanna og flytja 15% talaðs máls í sjónvarpi, það eru mjög fáar konur í samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni og svo mætti lengi telja.

Verðbréfamarkaðurinn.
Konur eru ekki í meira mæli í framvarðarsveit atvinnulífsins nú heldur en fyrir tíu árum síðan. Mér finnst þetta vera mjög athyglisvert og í raun áhyggjuefni. Í viðskiptaráðuneytinu hefur mikill tími farið í mótun verðbréfamarkaðar á síðustu árum. Konur eru lítið áberandi á þessum markaði. Þær stýra ekki fyrirtækjum í kauphöllinni og þær eru mun síður að víla og díla á markaðnum fyrir milljarða króna eins og þykir svo flott í dag. Rannsóknir sýna að karlar sökkva sér mun frekar en konur með óslökkvandi ástríðu í eitthvert viðfangsefni, sérstaklega ef að það er að einhverju að keppa. Verðbréfamarkaðurinn virkar oft þannig á karla. Það kemst ekkert annað að, það er keppni í gangi og ég verð að vinna.

Stjórnun fyrirtækja
Það er sama sagan þegar kemur að stjórnun fyrirtækja. Konur eru lítt sjáanlegar í stjórnum fyrirtækja í kauphöllinni. Í þessu sambandi eru athyglisvert að skoða lagafrumvarp sem norska ríkisstjórnin hefur lagt fram í tvígang um kvóta fyrir konur í stjórnir fyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu skulu eigi færri en 40% stjórnarmanna í fyrirtækjum að vera konur. Í dag eru einungis 6% stjórnarmanna konur í Noregi. Þó menn kunni að hafa mismunandi skoðanir á því hversu langt eigi að ganga og hvort aðgerðir sem þessar komi konum í raun vel er þetta mjög athyglisverð tilraun.

Því hefur stunduð verið borið við að konur vilji ekki eða þori ekki að takast á við ábyrgð, eins og sjá má t.d. í nýlegri könnun Samtaka atvinnulífsins. Sú niðurstaða sem SA slá upp á heimasíðu sinni að "konur sækist síður eftir stjórnunarstörfum" á tæplega við rök að styðjast, enda sýna erlendar kannanir hið gagnstæða.

Menntun kvenna
Þrátt fyrir þessar tölur um yfirburðahlutfall karla í efstu stigum atvinnulífsins er engu að síður ekki hægt að líta fram hjá því að konur hafa verið að hasla sér völl í atvinnulífinu með góðum árangri. Konur eru fjölmennar í næst efstu stigum pýramídans og þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að þær komist til æðstu metorða. Það er svo sem ekki hægt að segja til um með nákvæmni hvernig þjóðfélagið mun þróast á næstu árum og áratugum en það segir sig sjálft að aukin menntun kvenna mun leiða til aukinnar þátttöku þeirra í atvinnulífinu.

Þrátt fyrir að menntunarstig karla sé enn hærra en kvenna yfir heildina þá eru konur í meirihluta í langflestum greinum háskólanáms í dag og því ekki langt að bíða að menntunarstig þeirra verði hærra en karla. Það er þó athyglisvert að tölur um menntun kvenna sýna uppsafnaða menntunarþörf kvenna. Það er gríðarlegur fjöldi miðaldra kvenna í námi, konur sem kannski áttu ekki kost á menntun á sínum tíma. Meðalaldur kvenna í háskólanámi er allnokkru hærri en karla.

Frumkvæði.
Eitt hefur vakið athygli mína. Í ráðherratíð minni hef ég staðið að einkavæðingu fimm fyrirtækja. Konur koma bara yfirhöfuð ekki að því. Einkavæðingarnefnd hefur haldið um fimm hundruð fundi frá árinu 1996 og fengið hundruð manna á fund til sín. Konurnar sem hafa komið á fund nefndarinnar er hægt að telja á fingrum annarrar handar. Engin kona kom að sölu bankanna. Í vor komu þrettán hópar með tillögur um framtíðaráform varðandi Sementsverksmiðjuna. Engin kona var í þeim hópi.

Konur þurfa að sýna meira frumkvæði. Það er í þessu ljósi ekki hægt annað en dást að verkefnum eins og Auður í krafti kvenna. Forveri minn í starfi iðnaðar- og viðskiparáðherra hafði frumkvæði að mikilvægu upphafi að því að efla konur í atvinnurekstri með því að efna til starfs Félags kvenna í atvinnurekstri og þá hefur ráðuneytið ásamt félagsmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg tekið þátt í rekstri Lánatryggingarsjóðs kvenna.

Staðan betri.
Þrátt fyrir að ekki sé hægt að segja að staða kvenna í stjórnmálum sé góð er hún að mínu mati sýnu betri en í atvinnulífinu. Konum hefur þó gengið illa að komast yfir 30% glerþakið. Á Alþingi, í ríkisstjórn og í sveitarstjórnum eru konur u.þ.b. við 30% múrinn. Færri konur eru hins vegar forstöðumenn stofnana, ráðuneytisstjórar og sendiherrar. Þegar tölur eru teknar saman um nýja forstöðumenn ríkisstofnana kemur í ljós að konur eru um helmingur í þeim hópi.

Hvað er hægt að gera
Lagalega er ekki mikið hægt að gera. Það er ekki hægt að segja að halli á konur í lögum. Það er hugarfarið sem þarf að breytast og hægt er að stuðla að því með verkefnum svo sem verkefninu "Fleiri konur í stjórnmál" "Auður í krafti kvenna" o.s.frv. Uppeldi skiptir miklu máli. Fyrirmyndir skipta miklu máli. Að því leyti til, vona ég að við séum á réttri leið.

Ríkisstjórnin hefur sett í stjórnarsáttmálann að hvetja skuli fyrirtæki og opinberar stofnanir til að vinna að jafnréttismálum. Gengist verði fyrir rannsóknum á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og áfram unnið að því að jafna launamun kynjanna.

Launamunur kynjanna er algerlega óásættanlegur. Það er skylda okkar að taka á því máli.

Í opinberri stjórnsýslu fer víða um heim mjög fyrir umræðu um samþættingu (e. mainstreaming), þ.e. líta verði kynbundið á sérhverja stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðun, hvort sem hún lýtur að byggingu skóla eða hækkun húsaleigubóta, verður að taka mið af þörfum bæði karla og kvenna. Þessi aðferð gerir miklar kröfur til þeirra sem taka ákvörðun og kallar á mikla gagnasöfnun. Hún hefur að litlu leyti rutt sér til rúms í íslenska stefnumörkun.

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um jafnréttismál án þess að tiltaka lögin um fæðingarorlof sem án alls efa voru mesta framfaramál í jafnréttisbaráttunni í mjög langan tíma. Þar eru Íslendingar í fararbroddi. Þetta er það mál, sem ég er hvað ánægðust með af þeim málum sem samþykkt hafa verið á Alþingi síðan ég tók sæti þar. Það er í raun broslegt að nú er uppi orðrómur um það að 40 ára konur og eldri konur verði mun vinsælli starfskraftar en karlkyns jafnaldrar þeirra vegna þess að karlarnir geta verið stanslaust í fæðingarorlofi fram eftir öllum aldri. Þetta er frábært.

Þá er ekki úr vegi að minnast á nauðsyn þess að karlar láti jafnréttismál til sín taka. Í stað þess að nálgast jafnrétti kynjanna sem sértækt viðfangsefni sem höfði einungis til kvenna hefur sú skoðun rutt sér til rúms að jafnréttismál séu mál samfélagsins í heild. Langflestum sé hagur í breytingum á þessu sviði og því sé eðlilegt að sem flestir taki þátt í umæðunni og í breytingunum. Undirliggjandi er að jafnrétti sé ekki eingöngu réttlætismál heldur sé nauðsynlegt að nýta mannauð beggja kynja betur en gert er í dag af þjóðhagslegum ástæðum. Þjóðfélagið í heild er best sett ef hver einstaklingur gerir það sem hann er hæfastur til.

Karlar hafa hag af breytingunni vegna aukinnar ábyrgðar á fjölskyldunni. Karlar og konur hafa sömu hagsmuni af því að hið gullna jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs náist.


Ágætu hamhleypur,
Við sem hér erum saman komnar tökum þátt í ákveðinni þróun á okkar samfélagi í þá átt að koma á jafnrétti á milli kynja. Við erum margar hverjar í forystu fyrir þeirri þróun. Þessi þróun á sér stað um allan hinn vestræna heim.

Ég ólst upp við það að fara í öll verk og e.t.v. var það lán okkar systranna að eiga ekki bróður og þess vegna gat ekki átt sér stað verkaskipting á bænum eins og víða var. Strákarnir fóru í útiverk, en stúlkurnar í inniverk. Þá var það einnig mikilvægt í uppeldinu að pabbi treysti okkur í öll verk og sú hugsun að maður gæti ekki eða kynni ekki var bara ekki meðferðis.

Það hafði einnig sín áhrif að móðir okkar lést þegar ég var aðeins 10 ára og við það jókst enn ábyrgð okkar heima fyrir. Móðir okkar hafði talað um að hún vildi að við færum í kvennaskólann í Reykjavík og hún hafði einnig lagt nokkuð mikla fjármuni í banka sem áttu að vera trygging fyrir því að við gætum stundað nám. Þessir fjármunir voru andvirði hluta verslunar sem hún átti í Reykjavík áður en hún gerðist bóndakona. þetta var fyrir tíma verðtryggingar, þannig að féð rýrnaði en var þó mikilvægt. Móðir mín var heimskona eins og ég leyfi mér að kalla það, átti vefnaðarvöruverslun og fór til útlanda til að kaupa inn. Á fertugsaldri kynntist hún bónda norður í landi og ákvað að selja hlut sinni í búðinni og gerast húsfreyja í sveit.
Um miðja síðustu öld þótti það dágóð menntun að hafa gagnfræðapróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík og víst er að það var góður skóli. Það voru þau hjónin Þóra og Páll Melsted sem komu skólanum á fót árið 1874 með ósérhlífni og þrautseigju. Það var á þessum árum 1870 til 1895 sem íslenskar konur vöknuðu af dvala. Kvenfélög voru stofnuð og ýmiss konar félagsskapur víða um land og voru áhersluatriðin þau að kenna lestur og skrift, enda hefur verið talað um að konur á þessum tíma hafi þjást af andlegu hungri. Tvö kvennablöð hófu göngu sína árið 1895, Framtíðin og Kvennablaðið. Þegar það er haft í huga að þessi vakning átti sér stað á seinni hluta 19. aldar og að konur öðlast kosningarétt árið 1915 þá má halda því fram að kvenfrelsisþróunin hafi verið ótrúlega hæg á 20. öldinni. Þegar ég var í Kvennó á 7. áratuginum sveif ennþá yfir vötnunum að próf frá þeim ágæta skóla væri hæfileg menntun fyrir konur, sem síðan átti fyrir að liggja að verða húsmæður.

Ég held því fram að Kvennafrídagurinn árið 1976 hafi haft mikil áhrif. Þannig var það a.m.k. með mig. Það hafði stofnun Kvennalistans líka, ekki síst vegna þess að hann ýtti á okkur konurnar í Fjórflokknum að berjast innan okkar flokka og væri hægt að segja ýmsar reynslusögur í þeim efnum ef tími gæfist til.
Þegar ég ákvað árið 1986 að fara af alvöru út í stjórnmál var það ekki síst vegna þess að ég hafði mikinn metnað fyrir hönd míns flokks. Það var talsvert átak að rífa sig upp sem bóndakona í sveit með eiginmann og 2 lítil börn og koma sér upp öðru heimili í Reykjavík, en það var líka ögrandi verkefni að fást við.

Ég er á meðal fyrstu landsbyggðarkvenna sem taka sæti á Alþingi.
Ég held því fram að konur á landsbyggðinni hafi almennt ekki fengið að taka þátt í landspólitík. Þá er ég að tala um að eiginmennirnir hafi ekki leyft það og þær þá kosið að halda friðinn. Þetta er vonandi að breytast.

Kæru gestir, baráttan heldur áfram. Ég hef ekki fengið neitt á silfurfati. Ég hef tekist á við karla á 4 ára fresti í mínum flokki um sæti á framboðslistum. Ef ég nennti að vera á neikvæðu nótunum gæti ég sagt að í öllum tilfellum hafi karlar verið að reyna að ná af mér sætinu. Ég hef orðið ofaná í öllum tilfellum og það er aðalatriðið.

Ég hef reynt að nálgast jafnréttismálin á jákvæðum nótum í gegnum árin. Ég hef góða reynslu af fjölmiðlum í ráðherratíð minni og það skiptir miklu máli. Mér hefur reynst vel að koma til dyranna eins og ég er klædd. Mér fellur vel að stjórna og tel að mér séu slíkir hæfileikar í blóð bornir. Þar sem ég er fædd kona, kallast það að vera stjórnsöm. Það er athyglisvert að þetta lýsingarorð er eingöngu notað um konur og þá í neikvæðri merkingu. Ég nefni annað lýsingarorð, sem er notað um konur í neikvæðri merkingu, en það er orðið framagjörn.
Það er skemmtilegt að segja ykkur það að lokum að fyrir hart nær 100 árum var ort vísa um ömmu mína og nöfnu þar sem kemur fram að hún hafi verið framagjörn, sem mér finnst athyglisvert miðað við tíðarandann.

Vísan er svona:
Skyldurækin skörp að vinna,
skemmtileg og framagjörn.
Vel um búið vön að sinna
Valgerður á Lómatjörn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta