Hoppa yfir valmynd
19. júní 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðning leiðbeinanda án undanþágu

Til þeirra er málið varða

Af gefnu tilefni vekur menntamálaráðuneytið athygli á ákvæðum laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er lúta að ráðningu og skipun kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

Í 10. gr. laganna segir að óheimilt sé að ráða eða skipa aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna til kennslu við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæðra skóla, sbr. lög um grunnskóla nr. 66/1995. Skv. lögunum ber að auglýsa öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar, og aldursstig nemenda. Sæki enginn grunnskólakennari um auglýst kennslustarf getur skólastjóri sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Fáist heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skal hann ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti, þó aldrei lengur en til árs í senn. Slíkur starfsmaður má ekki bera heitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.

Sérstaklega er vakin athygli á að taka ber slíkan starfsmann af launaskrá um leið og ráðningartími rennur út, nema skólastjóri hafi aftur sótt um undanþágu til undanþágunefndar og fyrir liggi samþykkt nefndarinnar. Formaður undanþágunefndar grunnskóla er Sigríður Lára Ásbergsdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, netfang: [email protected]

Lögverndunarlögin eru aðgengileg á vef ráðuneytisins, www.menntamalaraduneyti.is.


Menntamálaráðuneytið, 19. júní 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta