Hoppa yfir valmynd
19. júní 2003 Matvælaráðuneytið

Ráðstefna sjávarútvegsráðherra ríkja við Norður-Atlantshaf.

19. júní 2003.

FRÉTTATILKYNNING
FRÁ ÁTTUNDU RÁÐSTEFNU SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA RÍKJA VIÐ NORÐUR-ATLANTSHAF

Áttunda ráðstefna sjávarútvegsráðherra ríkja við Norður-Atlantshaf (NAFMC) var haldin í Halifax í Kanada dagana 16. til 18. júní 2003. Auk sjávarútvegsráðherra Kanada sátu fundinn sjávarútvegsráðherrar Íslands, Noregs, Færeyja, Grænlands, Rússlands og framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála Evrópusambandsins.

Ráðherrarnir höfðu komið sér saman um að þema áttundu ráðstefnunnar yrði Framkvæmd á samkomulagi um Sameinuðu þjóðanna um úthafsveiðar (UNFA) – Rammaviðmið fyrir Norður-Atlantshaf.

Allt frá því að NAFMC varð til árið 1995 hafa ráðherrar sjávarútvegsmála við Norður-Atlantshaf lagt mikla áherslu á að vernda og stjórna deilistofnum og leggja þeir aðaláherslu á að nota UNFA til að ná þessu markmiði. Á ráðstefnu þessa árs lýstu ráðherrarnir yfir ótvíræðum stuðningi sínum við það starf að hrinda ákvæðum UNFA í framkvæmd.

Ráðherrarnir báru saman bækur sínar um reynsluna af því beita ákvæðum samningsins um verndun og stjórnun fiskstofna. Þeir ræddu einnig þörfina fyrir að taka sameiginlega á þeim fiskveiðum sem ganga þvert á markmið verndunar. UNFA inniheldur skilvirk rammaviðmið um hvernig taka eigi á hnattrænum vandamálum við stjórn á sameiginlegum nytjastofnum. Ráðherrarnir lögðu einnig mikla áherslu á mikilvægi þess að skilgreina varúðarráðstafanir og að samþætta þær allri stefnumótun í umsjón nytjastofna í Norður-Atlantshafi.

Ráðherrarnir voru sammála um að mikilvægi þess að tryggja að allar staðbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir miði störf sín við meginreglur UNFA eins og þær eru skilgreindar í tíundu grein samningsins. Þeir fjölluðu ítarlega um þörfina fyrir aukna samhæfingu verndunar og umsjónar fiskstofna í Norður-Atlantshafi. Viðurkennd var skylda strandríkja og ríkja, sem veiða á úthöfum, til samstarfs um að tryggja samhæfðar aðgerðir hvað varðar sameiginlega deilistofna og víðförula fiskstofna í Norður-Atlantshafi, eins og hún er skilgreind í sjöundu grein samningsins.

Ráðherrarnir lýstu sameiginlegum áhyggjum sínum af óheftum veiðum úr sumum fiskstofnum sem stjórnun fiskveiða nær ekki til. Þeir veltu fyrir sér ýmsum leiðum til að takast á við þennan vanda, til dæmis aukið eftirlit, skráningu veiðiskipa og kvóta. Ráðherrarnir fullyrtu að mikilvægi vísindalegrar ráðgjafar við verndun fiskstofna undirstrikaði hve mikil þörf væri á áframhaldandi samstarfi um vísindalegar rannsóknir og aukinni gagnkvæmri miðlun gagna. Þeir fjölluðu einnig um mögulegt hlutverk svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana við verndun þessara fiskstofna.

Ráðherrarnir ræddu að lokum um helstu verkefni til framtíðar í verndun sameiginlegra fiskstofna. Þeir voru sammála um að vandinn við að koma á góðum starfsháttum og verndun fiskstofna þvert á efnahagslögsögur sé ekki göllum í núverandi lagarömmum að kenna heldur fyrst og fremst skorti á pólitískum vilja innan margra ríkja. Ráðherrarnir lögðu til að síðar væri hægt að taka upp á ráðstefnunni hvernig bæri að nálgast verndun á grundvelli vistkerfa til að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins til lengri tíma litið.

Ráðherrarnir staðfestu samþykkt Allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 57/143 og lögðu einkum áherslu á mikilvægi skilvirkrar framkvæmdar á ákvæðum samningsins. Þar eru með talin þau ákvæði sem varða tvíhliða, svæðisbundið og staðbundið samstarf við að fylgja honum eftir. Hvatt var til þess að áfram yrði haldið á því sviði.

Sendinefnd Íslands var skipuð þeim Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, Ármanni Kr. Ólafssyni aðstoðarmanni ráðherra og Kolbeini Árnasyni skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu.

Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um að níunda ráðstefna sjávarútvegsráðherra ríkja við Norður-Atlantshaf skyldi haldin á Íslandi. Á níundu ráðstefnunni verður fjallað um aðferðir og leiðir til að auka verðmæti fiskafurða og víxlverkan nýrra og hefðbundinna afurða.



Sjávarútvegsráðuneytið.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum