Hoppa yfir valmynd
25. júní 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur aðildarríkja Samnings um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR)

Í dag hefst í Bremen í Þýskalandi fundur umhverfisráðherra aðildarríkja Samnings um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR). Auk þess sitja fundinn ráðherrar ríkja sem land eiga að Eystrasaltinu (HELCOM). Sambærilegur ráðherrafundur var síðast haldinn í Sintra í Portúgal árið 1998 en sá fundur markaði tímamót í verndun Norðaustur-Atlantshafsins.

Markmið OSPAR er að vernda Norðaustur-Atlantshafið með því að draga úr mengun bæði frá landi og frá skipum. Á vegum OSPAR eru unnar umfangsmiklar úttektir á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins. Samningurinn fjallar ekki um stjórnun fiskveiða en getur komið ábendingum til yfirvalda á því sviði.

Eitt af meginviðfangsefnum fundarins er mat á árangri ríkja í því að draga úr losun geislavirkra efna í hafið. Árið 1998 var sett það markmið að losun slíkra efna í hafið yrði óveruleg árið 2020. Athyglin hefur einkum beinst að endurvinnslustöðinni í Sellafield á Bretlandseyjum. Í síðustu viku lýsti umhverfisráðherra Bretlands því yfir að losun á geislavirka efninu teknesín-99 í hafið yrði hætt tímabundið þar til aðferðir finnast til þess að hreinsa frárennslið. Þess er beðið að Bretland geri nánari grein fyrir málinu í dag en þetta mál er það eina sem ekki náðist samkomulag um á samningafundum embættismanna fyrir fund ráðherra. Þeir munu því þurfa að taka á því máli.

Á fundinum var kynnt ný úttekt Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á ástandi fiskistofna og áhrifum fiskveiða á vistkerfið. Ástandið í þessum efnum í Norðursjó, Írska hafinu og Eystrasaltinu er mjög alvarlegt. Staðan er mun betri við Ísland og Færeyjar m.a. annars vegna þess að þar hefur fiskveiðistjórnun tekið mið af vísindalegri ráðgjöf og langtímamarkmiðum. Íslenska sendinefndin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að forðast alhæfingar um ástand fiskistofna og að heimfæra ekki slæmt ástand á ofangreindum hafsvæðum yfir á stofna við Ísland.

Auk þess verða á fundinum samþykktar ályktanir um vistkerfisnálgun, verndarsvæði í hafinu og samstarf ríkja um heildarstefnumörkun um málefni þeirra hafsvæða sem Evrópuríki hafa áhrif á. Einnig verður samþykkt stefnumörkun um hættuleg efni, geislavirkan úrgang, næringarefnaauðgun og verndun vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika.

Fundinn sitja fyrir Íslands hönd Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Halldór Þorgeirsson skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Davíð Egilson forstjóri Umhverfisstofnunar og Þórir Skarphéðinsson lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.

Frekari upplýsingar veitir Halldór Þorgeirsson í síma 896 2130.

Fréttatilkynning nr. 20/2003
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta