Þórshöfn og Raufarhöfn heimsótt
Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt starfsmanni samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar heimsóttu Þórshöfn og Raufarhöfn í síðustu viku.
Á Þórshöfn var fagnað með heimamönnum að lokið hefur verið við dýpkunarframkvæmdir í höfninni. Við athöfn sem fram fór á Þórshafnarbryggju lýsti Björn Ingimarsson sveitarstjóri framkvæmdum og sr. Sveinbjörn Bjarnason blessaði mannvirkjagerðina við höfnina. Að athöfn lokinni var móttaka í félagsheimilinu þar sem samgönguráðherra ásamt fleirum ávörpuðu gesti.
Á Raufarhöfn var fundað með sveitarstjórnarmönnum þar sem farið var yfir ýmis mál s.s. hafnarmál, fjarskiptamál og vegamál. Fjarskiptamál voru fulltrúum Raufarhafnar ofarlega í huga, en þeir telja að flöskuhálsar í fjarskiptum standi sveitarfélaginu og atvinnulífi þess fyrir þrifum. Sáu þeir fyrir sér ýmsa möguleika í stöðunni ef örugg og góð fjarskipti væru til staðar. Nefnd voru dæmi eins og að nýta sér fjarfundabúnað fyrir ýmiskonar fundi, samvinnuverkefni og kennslu. Einnig kom fram sá möguleiki að taka til Raufarhafnar ýmis fjarvinnsluverkefni s.s. símsvörun, skráningarverkefni og jafnvel hugbúnaðarþjónustu.
Fyrirtækið Norðursími á Raufarhöfn var heimsótt, en það er með símsvörunarþjónustu fyrir 5 fyrirtæki, þ.á.m. Seðlabanka Íslands og Sæplast á Dalvík. Hjá Guðnýju Hrund sveitarstjóra kom fram að fyrirtækið væri hikandi við að auka við sig verkefni, sérstaklega þyngri verkefni vegna takmarkaðs fjarskiptasambands.
Fulltrúar Raufarhafnar vöktu máls á veikum og óöruggum sjónvarpsmerkjum Ríkissjónvarpsins. Fram kom að í samanburði væru merki stöðvar 2 óaðfinnanleg. Samgönguráðherra sagði frá því að starfshópur um stafrænt sjónvarp hefði verið að ljúka störfum og skoðað yrði hvort tillögur hans fælu í sér lausn á þessum málum.
Hafnarmál samgönguáætlunar voru til umræðu. Dýpkunarframkvæmdir voru boðnar út saman á Raufarhöfn og Þórshöfn og hófust framkvæmdir í maí 2002. Ráðgert er að þeim ljúki þann 1. september 2003. Með dýpkunarframkvæmdum verður innsigling til Raufarhafnar fær öllum skipum loðnuflotans og skapar mikið rekstraröryggi fyrir verksmiðjuna sem er mikilvægur atvinnuveitandi á staðnum.
Að lokum var farið yfir vegaframkvæmdir í samgönguáætlun, en þær eru meiri en dæmi eru um áður. Miklum vegaframkvæmdum hefur verið flýtt fyrir tilstilli sérstaks átaks til eflingar atvinnutækifæra á árinu, sem að stórum hluta kemur norðausturhorninu til góða.