Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funda.
Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funda
Dómsmálaráðherrar Norðurlanda komu saman til fundar í Saltsjöbaden við Stokkhólm fimmtudaginn 26. júní. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Thomas Bodström, dómsmálaráðherra Svía, stjórnaði fundinum.
Meginumræðuefni fundarins voru þrjú: Baráttan gegn verslun með fólk, frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið (ESB) og samstarf Norðurlandanna á sviði sifjaréttar.
Í ræðu sinni um frumvarpið að nýrri stjórnarskrá ESB varpaði Björn Bjarnason fram þeirri spurningu, hvort nauðsynlegt væri að ganga svo langt við að takmarka vald einstakra ríkja í eigin málum til að tryggja gott samstarf þeirra innan ESB eins og gert er í frumvarpinu. Vissulega væri gagnlegt að samhæfa aðgerðir gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi en hins vegar yrði að gæta að því að seilast ekki of langt inn á refsiréttarsvið einstakra ríkja með kröfum um samræmingu. Þá taldi hann ekki til bóta að hætt yrði að líta á samstarf ríkjanna á sviði refsiréttar sem milliríkjasamstarf heldur yrði það fært undir forræði framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins. Hann hvatti til þess að staða mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstólsins í Strassborg yrði efld en ekki grafið undan henni með nýjum réttindakafla í stjórnarskrá ESB.
Dómsmálaráðherra bauð starfsbræðrum sínum til næsta ráðherrafundar á Íslandi sumarið 2004.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. júní 2003.
26. júní 2003.