Ráðherrafundur EFTA í Kristiansand
Nr. 064
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sat í dag ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, í Kristiansand í Noregi. Eftir fundinn undirrituðu ráðherrarnir samning við Chile um fríverslun. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að þessi samningur væri mjög mikilvægur þar sem hann skapar ný viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Íslenskur útflutningur til Chile hefur farið vaxandi og er þar einkum um að ræða vélar og tæki til veiða og fiskvinnslu. Samningurinn gerir m.a. ráð fyrir afnámi tolla á vörur í viðskiptum milli landanna og er hann jafnframt einn víðtækasti fríverslunarsamningur sem EFTA-ríkin hafa gert og tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda. Benedikt Jónsson, sendiherra, var formaður og talsmaður EFTA-ríkjanna í viðræðunum.
Ráðherrarnir fögnuðu stækkun EES. Lögð var áhersla á að þrátt fyrir að samningum fækki verulega á næstunni vegna aðildar margra fríverslunarríkja að ESB heldur samstarf EFTA-ríkjanna gildi sínu. Utanríkisráðherra ítrekaði hversu mikilvægt það væri að fyrirtæki í EFTA-ríkjunum stæðu jafnfætis fyrirtækjum í ESB-ríkjum í samkeppni á erlendum mörkuðum. Samstarf EFTA-ríkjanna um fríverslun væri lykillinn að því.
EFTA-ríkin hafa nú gert tuttugu fríverslunarsamninga (við Búlgaríu, Chile Eistland, Frelsissamtök Palestínu, Ísrael, Jórdaníu, Króatíu, Lettland, Litháen, Makedóníu, Mexíkó, Pólland, Rúmeníu, Singapúr, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland) sem samtals ná til 350 milljóna íbúa. Þau hafa að undanförnu sótt út fyrir Evrópu og hafa nú undirritað fríverslunarsamninga við sex ríki utan álfunnar.
Í þessu sambandi lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með að frá því síðasti ráðherrafundur EFTA-ríkjanna var haldinn í desember sl. hafa viðræður við Líbanon, sem Ísland leiðir fyrir hönd EFTA-ríkjanna, og Suður-Afríku um fríverslun hafist. Enn fremur lýstu þeir yfir óánægju sinni vegna kyrrstöðu í samningaviðræðum við Kanada og ákváðu að halda áfram að leita leiða til að ljúka samningum við Kanada. Samningaviðræðurnar við Egyptaland og Túnis ganga nú betur og stefna ráðherrarnir á að ljúka þeim fyrir lok ársins. Litið er svo á að samkomulag ráðherranna frá fundi þeirra á Egilsstöðum í júní á síðasta ári um að aðstoða ríkin í því að aðlagast frjálsum viðskiptum hafi liðkað fyrir samningaviðræðunum. Ráðherrarnir fjölluðu um möguleika á því að hefja samningaviðræður við fleiri ríki í framtíðinni og var vikið að slíkum möguleikum varðandi t.d. Bandaríkin, Rússland, Japan og Kóreu.
Á morgun funda ráðherrarnir með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA þar sem málefni EFTA og EES-samstarfsins verða rædd, auk þróunarinnar í Evrópu almennt. Ákveðið var að vinna að leiðum til þess að efla pólitískt samstarf innan EFTA.
Meðfylgjandi er fréttatilkynning EFTA frá fundinum.
______________
Til hliðar við ráðherrafund EFTA átti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, einnig fund með utanríkisráðherrum Chile og Noregs. Utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Chile, María Soledad Alvear Valenzuela, ræddu möguleika á að auka samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum, þ.á m. í sjávarútvegi, og var ákveðið í því samhengi að hún komi í heimsókn til Íslands. Í framhaldi af fundinum undirrituðu ráðherrarnir tvíhliða fjárfestingasamning milli Íslands og Chile. Sá samningur tryggir fyrst og fremst aukna möguleika til gagnkvæmra fjárfestinga, jafnréttis og bestukjararéttinda fyrir fjárfesta, frjálst flæði fjármagns vegna fjárfestinga og skjótvirka lausn deilumála sem upp gætu komið milli fjárfesta og gistiríkis.
Þá átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með utanríkisráðherra Noregs, Jan Petersen, um lausn á síldardeilunni og um vandamál vegna framkvæmdar EES- samningsins.
.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. júní 2003