Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2003 Dómsmálaráðuneytið

Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa

Fréttatilkynning 16/2003

Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa til norðurs, vesturs og suðurs frá Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um að láta fara fram hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og meðfylgjandi jökulhlaupa í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli.

Ástæða þessarar samþykktar er að eins og kunnugt er hefur borið talsvert á skjálftavirkni í vestanverðum Mýrdalsjökli og talið er að komið hafi endurtekin kvikuinnskot undir Eyjafjallajökul á síðustu árum. Með þessu hefur verið fylgst af hálfu almannavarnayfirvalda og viðbragðsáætlanir hafa verið gerðar, en þær fyrst og fremst miðast við hugsanleg jökulhlaup til suðurs frá Mýrdalsjökli. Nýlega hafa komið fram við jarðlagakönnun upplýsingar um að stór hlaup hafi komið í Markarfljót vegna eldgosa í vestanverðum Mýrdalsjökli, sem orðið hafa á 1000 – 2000 ára fresti frá lokum síðustu ísaldar.

Ef slíkt hlaup yrði nú er ljóst að stór byggð svæði , allt frá Eyjafjöllum að Þjórsá, kynnu að vera í hættu og sérstaklega er talið að kanna þurfi hættu í Þórsmörk vegna nálægðar hennar við hugsanlegar eldstöðvar og jarðskjálftavirkni.

Sérstakur starfshópur sérfræðinga hefur á vegum almannavarnayfirvalda fjallað um þetta mál og telur hann hættumat og áhættugreiningu vera nauðsynlegan grundvöll þess að hægt sé að gera raunhæft skipulag almannavarna á svæðinu til verndar lífi og eignum fólks. Jafnframt þurfi að koma á vöktun svæðisins í samræmi við niðurstöður hættumatsins.

Niðurstöður starfshópsins eru birtar á heimasíðu ráðuneytisins, sjá:

Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa til norðurs, vesturs og suðurs frá Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls. PDF (2,77 mb)

Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa(377k) (minni myndgæði skýringamynda)


Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
1. júlí 2003


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum