Mál nr. 6/2003: Dómur frá 2. júlí 2003
Ár 2003, miðvikudaginn 2. júlí, er í Félagsdómi í málinu nr. 6/2003:
Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar
B-hluti
(Steinunn Guðbjartsdóttir, hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Skýrr hf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir, hrl.)
kveðinn upp svofelldur
dómur
Mál þetta, sem dómtekið var 25. júní síðastliðinn, er höfðað 13. maí síðastliðinn.
Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, B-hluti, Grettisgötu 89, Reykjavík.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík f.h. Skýrr hf., Ármúla 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að stefnda beri samkvæmt gr. 2.3.3.1 í gildandi kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, B hluta, við Skýrr hf. að greiða minnst 4 klukkustundir í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu við fjarlausnir eða símhringingar sem ekki eru í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda
Að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir
Í gildi er kjarasamningur milli stefnda Skýrr hf. og stefnanda sem er fyrir tímabilið frá 1. janúar 2001 til 29. febrúar 2004. Í kafla 2.3 í kjarasamningnum er fjallað um yfirvinnu. Ákvæði um útköll er í grein 2.3.3.1 og er svohljóðandi:
„Þegar starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi af daglegri vinnu hans skal greitt yfirvinnukaup fyrir að minnsta kosti 4 klst., nema reglulegur vinnutími hans hefjist innan þriggja klukkustunda frá því að hann fór til vinnu, en þá greiðist yfirvinna frá upphafi útkalls fram til þess að reglulegur vinnutími hefst. Ljúki útkalli áður en 3 klst. eru liðnar frá lokum hinnar daglegu vinnu, skal greiða yfirvinnu fyrir tímann frá lokum hinnar daglegu vinnu til loka útkallsins.”
Stefndi hefur meðal annars kallað starfsmenn sína til vinnu á þann hátt að fela þeim að leysa tiltekið verkefni með fjarlausn utan reglulegs vinnustaðar eða leysa verkefni í gegnum síma. Hefur fjarlausn verið skilgreind þannig að um sé að ræða vinnu sem starfsmaður getur unnið heima hjá sér í gegnum tölvu. Símhringing hefur hins vegar verið skilgreind þannig að starfsmaður geti leyst verkið af hendi án þess að þurfa að kveikja á tölvunni. Hefur stefndi greitt fjórar klukkustundir fyrir fjarlausnir og tvær klukkustundir fyrir símhringingar undanfarin ár. Í maí 2002 ákvað stefndi hins vegar að breyta greiðslum fyrir símhringingar og fjarlausnir á þann hátt að greiða að lágmarki eina klukkustund á tímabilinu frá klukkan 7 til klukkan 23 í stað fjögurra klukkustunda áður. Á tímabilinu frá klukkan 23 til klukkan 7 ákvað stefndi að greiða fjórar klukkustundir eins og áður.
Þessari ákvörðun stefnda og framkvæmd greiðslna var mótmælt af trúnaðarmanni starfsmanna stefnda og með bréfi 12. júní 2002 var þess óskað að réttindanefnd BSRB gæfi álit sitt á málinu. Var niðurstaða þess stefnanda í vil. Álitinu var komið á framfæri við stefnda með bréfi 18. júní 2002 en hann hélt fast við umrædda ákvörðun sína og hafnaði frekari greiðslum.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst einkum reisa kröfu sína á ákvæði 2.3.3.1 í kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Skýrr hf. Í ákvæðinu sé kveðið á um að starfsmaður eigi rétt á fjögurra klst. yfirvinnugreiðslu þegar hann er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi af daglegri vinnu hans. Skýrt orðalag ákvæðisins kveði á um fjögurra klst. yfirvinnugreiðslu án þess að minnst sé á skerðingu á þeim grunni og enginn munur sé gerður á því með hverjum hætti starfsmaðurinn er kallaður til vinnu, t.d. hvort verkefnið verði leyst gegnum síma, með vinnu utan reglulegs vinnustaðar eða á vinnustaðnum. Stefnandi heldur því fram að ákvæðið nái jafnt til allra tilvika þar sem starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi af reglulegum vinnutíma.
Kjarasamningur kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Telji stefnandi að með því að greiða færri yfirvinnustundir fyrir fjarlausnir og verkefni sem unnin verði í gegnum síma en grein 2.3.3.1 í kjarasamningi mælir fyrir um sé stefndi að brjóta gegn greindu ákvæði kjarasamningsins.
Með vísan til ofanritaðs sé stefnda óheimilt að ákveða einhliða að greiða færri klukkustundir fyrir fjarlausnir en kveðið er á um í kjarasamningsákvæði 2.3.3.1. Hið sama sama gildi um símhringingar til starfsmanna utan vinnutíma.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveður starfsmenn Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, fyrirrennara stefnda, hafa farið að sinna verkefnum með fjarlausnum eftir 1991. Hafi þá orðið um það samkomulag að þeir sem til þess hefðu aðstöðu hefðu heimild til að sinna vandamálum sem upp kæmu með fjarlausn að heiman. Þessu fyrirkomulagi hafi verið haldið óbreyttu eftir að stefndi tók við rekstrinum 1996. Samkvæmt því hafi verið gert ráð fyrir að starfsmenn fengju greiddar fjórar klst. fyrir slíka vinnu enda legðu þeir sjálfir til tæki, s.s. tölvur og módem, og greiddu sjálfir allan kostnað vegna tengingar við stefnda. Litið hafi verið svo á að innifalið í þeirri greiðslu væri endurgjald vegna þess kostnaðar sem starfsmenn bæru sjálfir auk yfirborgunar. Um þetta fyrirkomulag hafi enginn ágreiningur verið og á engan hátt litið svo á að fyrrgreind greiðsla væri vegna útkalls í skilningi kjarasamnings.
Fyrir símaaðstoð hafi að sama skapi aldrei verið greiddar meira en tvær klst.
Vegna breyttra rekstraraðstæðna hafi reynst nauðsynlegt að fara yfir rekstur fyrirtækisins árið 2002 og auka kostnaðaraðhald. Þær forsendur sem fyrrnefnt fyrirkomulag byggi á hafi þá verið orðnar gjörbreyttar. Bæði hafi stefndi nú séð starfsmönnum fyrir öllum tölvubúnaði til fjarvinnslu auk þess sem launaþróun starfsmanna hafi breyst. Hafi stefndi því talið eðlilegt að endurskoða greiðslur til starfsmanna vegna vinnu með fjarlausn og fyrir símhringingar. Í apríl 2002 hafi stefndi ákveðið að fyrirtækið greiddi að lágmarki eina klst. þegar um fjarlausnir eða símaaðstoð væri að ræða og þann tíma, sem unninn væri, tæki vinnan lengri tíma. Um þetta hafi átt sér stað óformleg samskipti milli stefnda og starfsmanna. Í framhaldi af því hafi verið komið til móts við óskir starfsmanna þannig að framvegis yrði greidd ein klst. fyrir símaaðstoð og fjarlausnir á tímabilinu 7-23 en fjórar klst. fyrir fjarlausn og 2 klst. fyrir símaaðstoð á tímabilinu frá 23 að kvöldi til 7 að morgni.
Í kafla greinargerðar stefnda, sem ber yfirskriftina „Athugasemdir varðandi formhlið málsins,” er bent á að vafasamt sé hvort B-hluti Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar uppfylli skilyrði 2. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og sé lögformlegur samningsaðili við gerð kjarasamninga samkvæmt 5. gr. þeirra laga, sbr. FD. X,153.
Kröfur stefnda eru á því byggðar að ákvæði gr. 2.3.3.1. í kjarasamningi stefnda eigi samkvæmt orðalagi sínu og tilgangi einungis við um kvaðningu til vinnu sem feli í sér að starfsmaður þurfi að fara út af heimili sínu eða dvalarstað og á vinnustað. Sé það í samræmi við viðurkennda framkvæmd annarra fyrirtækja á samsvarandi ákvæðum kjarasamninga.
Máli sínu til stuðnings vísar stefndi einnig til þess að óumdeilt sé að stefndi hafi aldrei greitt fyrir símhringingar samkvæmt útkallsreglu samningsins og hafi sú framkvæmd verið athugasemdalaus fram til þessa.
Enginn eðlismunur sé á fjarlausn og símaaðstoð. Miðað við núverandi fjarskiptatækni þurfi fjarlausn ekki endilega að vera flóknari eða taka lengri tíma en aðstoð veitt í gegnum síma. Fái það stuðning í kröfugerð stefnanda þar sem sömu sjónarmið séu lögð til grundvallar varðandi bæði tilvikin. Fjarlausnir hafi auk þess verið óþekktar þegar samið var í kjarasamningum um að lágmarki fjögurra klst. greiðslu vegna útkalls án tillits til unnins tíma.
Umrædd útkallsregla feli einnig í sér frávik frá þeirri meginreglu vinnuréttar að aðeins skuli greitt fyrir þær stundir sem starfsmaður vinnur og sæti því óhjákvæmilega þröngri túlkun, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 5/2003.
Að hálfu stefnda hafi aldrei verið litið svo á að greiða skuli fyrir fjarlausnir og símhringingar eða símaðstoð samkvæmt útkallsreglu kjarasamninga. Vegna símhringinga hafi frá árinu 1987, þegar farið hafi verið að greiða sérstaklega fyrir slíka aðstoð, verið greiddar tvær klukkustundir í yfirvinnu. Greiðsla vegna fjarlausna hafi, þegar þær komu til, verið ákveðin hærri af sérstökum orsökum. Hafi þar bæði verið um að ræða tillit til kostnaðar starfsmanna vegna búnaðar og tengingar sem þeir báru sjálfir og yfirborgun umfram skyldu.
Stefndi hafi ekki tekið á sig neinar frekari samningsskyldur en felist í ákvæðum gr. 2.3.3.1. Í orðunum „þegar starfsmaður er kallaður til vinnu” í fyrrgreindu samningsákvæði felist samkvæmt framansögðu að hann sé kallaður aftur á vinnustað, eða, með öðrum orðum, kallaður út. Vinna sem starfsmaður innir af hendi heima hjá sér teljist því ekki útkall í merkingu samningsins. Eigi það jafnt við um fjarlausnir og símhringingar sem aðra vinnu.
Þá feli kröfur stefnanda einnig í sér að krafist sé viðurkenningar á því að greiða skuli fjórar klst. fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu án tillits til þess hvort hann nýtur þegar greiðslna vegna fyrra útkalls. Starfsmaðurinn teljist þá vera í vinnu og eigi ekki rétt til frekari greiðslna á því tímabili, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 5/2003.
Niðurstaða
Í gildi er kjarasamningur milli málsaðila fyrir tímabilið frá 1. janúar 2001 til 29. febrúar 2004. Með gerð kjarasamnings af hálfu stefnda Skýrr hf. við stefnanda hefur stefndi viðurkennt að stefnandi sé stéttarfélag í skilningi laga og þar með lögformlegur samningsaðili. Ber þegar af þeirri ástæðu að hafna þeim sjónarmiðum sem fram koma í „athugasemdum” stefnda um formhlið málsins, enda gefa þau ekki tilefni til frávísunar málsins ex officio. Á málið því undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.
Kröfur stefnanda eru einvörðungu reistar á því að greiðslur fyrir fjarlausnir starfsmanna stefnda og verk sem leyst eru með símhringingum falli undir útkallsákvæði gr. 2.3.3.1 í kjarasamningi aðila. Gerir stefndi í kröfugerð sinni engan greinarmun á greiðslum fyrir fjarlausnir og símhringingar þrátt fyrir að ágreiningslaust sé með aðilum að greiddar hafi verið verið fjórar klukkustundir fyrir fjarlausnir en tvær klukkustundir fyrir símhringingar fram að umræddri ákvörðun stefnda í maí 2002.
Útkallsákvæði kjarasamninga eru frávik frá þeirri meginreglu kjarasamninga að laun séu einungis greidd fyrir þær vinnustundir sem starfsmaður innir af hendi og verður að túlka ákvæðin með hliðsjón af því. Er þannig ekki greitt fyrir óunninn tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings mæli fyrir um það.
Óumdeilt er að stefndi hefur aldrei greitt fyrir símhringingar samkvæmt útkallsreglu samningsins og að sú framkvæmd hafi verið verið athugasemdalaus af hálfu stefnanda fram að höfðun máls þessa. Verður þó að telja að enginn eðlismunur sé á fjarlausn og símaaðstoð. Fær sá skilningur stuðning í kröfugerð stefnanda og málsútlistun þar sem sömu sjónarmið eru lögð til grundvallar um bæði tilvikin.
Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á með stefnda að ákvæði gr. 2.3.3.1 í kjarasamningi aðila eigi samkvæmt orðalagi sínu og tilgangi einungis við um kvaðningu til vinnu sem feli í sér að starfsmaður þurfi að fara á vinnustað. Er það og í samræmi við viðurkennda framkvæmd á samsvarandi ákvæðum annarra kjarasamninga. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu en rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður falli niður.
Dómsorð
Stefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Skýrr hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, B-hluta, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Helgi I. Jónsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gunnar Sæmundsson
Valgeir Pálsson