24 nýir staðir á heimsminjaskrá UNESCO
Nefnd UNESCO um heimsminjar (World Heritage Committee) samþykkti á fundi sínum í París í byrjun júlí að bæta við 24 nýjum stöðum á heimsminjaskrána. Á skránni eru nú 754 staðir í 128 löndum en allir þessir staðir eru taldir einstakir sem menningar- eða náttúruminjar. 149 staðanna eru náttúruminjar, 582 menningarminjar og 23 staðir eru bæði menningar- og náttúruminjar. Nú eru í fyrsta sinn staðir frá Gambíu, Mongólíu, Kazakhstan og Súdan á heimsminjaskránni.
Á næsta ári mun nefndin fjalla um umsókn íslenskra stjórnvalda um að Þingvellir verði teknir á heimsminjaskrána en umsókninni var skilað til nefndarinnar fyrir tilskilinn frest í lok janúar sl. Á sérstökum lista eru 7 aðrir staðir sem til greina kemur af hálfu Íslands að tilnefna á heimsminjaskrá UNESCO á næstu fimm til tíu árum. Fulltrúar frá Íslandi sátu fund heimsminjanefndar UNESCO í París, m.a. til að undirbúa umræður um Þingvelli, sem fjallað verður um á næsta ársfundi nefndarinnar. Hann verður haldinn í Kína í júlíbyrjun 2004.
Eftirfarandi 5 náttúruminjar voru samþykktar:
1. Purnululu þjóðgarðurinn, Ástralíu
2. Samsíða fljótin þrjú á verndarsvæðinu í Yunnan, Kína
3. Fjallið San Giorgio, Sviss
4. Uvs Nuur vatnasvæðið, Mongólíu og Rússlandi
5. Phong Nha - Ke Bang þjóðgarðurinn, Víetnam
Eftirfarandi 19 menningarminjar voru samþykktar:
1. Menningarlandslag og fornleifar í Bamiyan-dalnum, Afghanistan
2. Quebrada de Humahuaca dalurinn, Argentínu
3. Sögulegur hafnarbær Valparaiso, Chile
4. Gyðingahverfið og St. Procopius kirkjan í Trebic, Tékklandi
5. James-eyjarnar og nágrenni, Gambíu
6. Hellarnir í Bhimbetka, Indlandi
7. Fornleifasvæðið í Takht-e Soleyman, Íran
8. Fornaldaborgin Ashur (Qala'at Sherqat), Írak
9. Hvíta borgin í Tel-Aviv, Ísrael
10. Kirkjurnar níu í Sacri Monti, Piedmont og Lombardy, Ítalíu
11. Grafhýsið í Khoja Ahmed Yasawi, Kazakhstan
12. Franska trúboðsstöðin í Sierra Gorda, Querétaro, Mexíkó
13. Trékirkjurnar í suðurhluta Litla Póllands, Póllandi
14. Kastalinn, virkið og fornaldarborgin í Derbent, Rússlandi
15. Mapungubwe menningarlandslagið, Suður-Afríku
16. Ubeda-Baeza borgirnar, Spáni
17. Fornleifastaðirnir í Gebel Barkal, Napatan, Súdan
18. Konunglegu grasagarðarnir í Kew, Englandi
19. Matobo hæðirnar, Zimbabwe
Að auki ákvað nefndin að stækka eftirfarandi staði sem þegar eru á heimsminjaskránni:
1. Friðlýsta svæðið í Mið-Amazon, Brasilíu
2. Grafhýsi Ming og Qing ættarveldisins, Kína
3. Forleifasvæðin í Panamá Viejo, Panama.