Endurskoðun stefnunnar um upplýsingasamfélagið
Nú við upphaf nýs kjörtímabils hefur ríkisstjórnin ákveðið að endurskoða stefnuna um upplýsingasamfélagið sem er frá árinu 1996 og móta framtíðarsýn í málaflokknum sem m.a. tekur mið af nýjum stjórnarsáttmála og alþjóðlegum straumum.
Stefnumótunin hófst í ágústmánuði og stefnt er að því að ljúka starfinu fyrir árslok 2003.
Skipuð hefur verið 5 manna stefnumótunarnefnd sem í sitja Ásdís Halla Bragadóttir, Sigfús Ingi Sigfússon, Svava Garðarsdóttir, Þór Sigfússon og Guðbjörg Sigurðardóttir, verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Nefndin mun leggja fram frumtillögur að endurskoðaðri stefnu og ganga frá endanlegri tillögu til ríkisstjórnar.
Nú er verið að koma á fót samráðshópi sem fjallar um tillögur stefnumótunarnefndarinnar og gerir tillögur um viðbætur og/eða breytingar á þeim. Óskað hefur verið eftir tilnefningum frá eftirtöldum aðilum í samráðshópinn: Samtökum atvinnulífsins, ASÍ, BSRB, BHM, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, Skýrslutæknifélaginu, Verslunarráði, Staðlaráði, Félagi tölvunarfræðinga, Blaðamannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, fjármálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Verkefnisstjóri upplýsingamála í forsætisráðuneyti mun leiða vinnu samráðshópsins.
Annar samráðshópur mun einnig koma að stefnumótunarvinnunni. Það er Samráðsnefnd í málefnum upplýsingasamfélagsins sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta en hún verður upplýst um stefnumótunarvinnuna á öllum stigum hennar og kemur athugasemdum sínum til stefnumótunarnefndar.