Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2003 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðuneytið kynnir viðmiðunarreglur vegna útihátíða

Dómsmálaráðuneytið kynnir viðmiðunarreglur vegna útihátíða



Dómsmálaráðherra Björn Bjarnason sendi hinn 27. júní sl. ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum viðmiðunarreglur dómsmálaráðuneytisins við útgáfu skemmtanaleyfa vegna útihátíða með sérstöku tilliti til verslunarmannahelgarinnar. Í reglunum er lögð áhersla á samráð og samvinnu lögreglu, heilsugæslu, björgunarsveita, mótshaldara og annarra skipuleggjanda við undirbúning og framkvæmd hátíða. Þá er einnig fjallað um skipulag hátíðarsvæðis, viðbúnað vegna slysa, hreinsun mótssvæði, afmörkun tjaldstæða auk annarra atriða. Reglur ráðuneytisins eru eftirfarandi:
1. Það er lögreglustjóra að meta löggæsluþörf vegna útihátíðar. Við það mat skulu lögreglustjórar taka tillit til væntanlegs gestafjölda, samsetningu gesta, staðsetningu hátíðar, hvort meðferð og neysla áfengis er bönnuð á mótssvæði o.sv.frv. Samkomuhaldari skal eiga þess kost að kynna sér tilhögun fyrirhugaðrar löggæslu.
2. Í umsókn um skemmtanaleyfi skulu mótshaldarar gera ítarlega grein fyrir hvers konar samkomu er sótt um leyfi fyrir, þ.e. hvort um sé að ræða almenna útihátíð, tónleika, dansleiki eða þess háttar og gera grein fyrir fyrirhugaðri dagskrá.
3. Tryggt skal að mótshaldarar og aðilar frá lögreglu, heilbrigðisstofnunum, björgunarsveitum og aðrir skipuleggjendur hittist á undirbúningstímanum og samþætti vinnubrögð sín á samráðsfundum sem viðkomandi lögreglustjóri skal boða til.
4. Skipulag hátíðarsvæðis ber að miða við þær forsendur sem leiða má af umsókn um útihátíðarhald, m.a. um áætlaðan fjölda gesta, lengd hátíðar, aldursdreifingu gesta sem líklegast er að sæki hátíðina, staðsetningu hátíðarinnar o.sv.frv. Það er viðkomandi lögreglustjóra að meta hvort sá viðbúnaður sem fyrirhugaður er á hátíðarsvæði sé fullnægjandi.
5. Mótshaldara ber að tryggja í samráði við öryggis- og heilbrigðisaðila að viðbúnaður verði nægilegur vegna slysa og óhappa. Skal miða búnað og mannafla við að unnt sé að sinna jafnt smáslysum sem og alvarlegri slysum.
6. Gera skal skýrar kröfur um hreinsun mótssvæðis, bæði á meðan hátíð stendur yfir og að henni lokinni. Tryggt skal að ruslagámar séu aðgengilegir og nógu margir á mótssvæði og hreinsun á rusli, glerbrotum og öðru sé næg til þess að halda mótssvæði hreinu svo ekki skapist slysahætta og sýkingarhætta vegna sorps.
7. Á meðan á hátíð stendur skal halda daglega samráðsfundi með yfirmönnum lögreglu, fulltrúum frá heilsugæslu, gæsluliðum og samkomuhaldara. Á fundum þessum skulu ofangreindir aðilar fara yfir stöðu mála á hátíðarsvæði og koma með tillögur til úrbóta hafi eitthvað misfarist í undirbúningi eða vegna einhverra atvika sem upp hafa komið í mótshaldi. Samkomuhaldara ber að tryggja að jafnan sé unnt að ná til hans eða fulltrúa hans á hátíðarsvæði.
8. Við undirbúning hátíðarsvæðis ber að afmarka og girða af ákveðið svæði sem ætlað er bifreiðum samkomugesta. Þar sem því verður við komið er æskilegt að unnt sé að skipta tjaldsvæðinu upp í ákveðin hólf og afmarka þau sérstaklega. Skulu hólf þessi vera vel merkt með merkingum sem ekki er auðvelt að fjarlægja. Fylgja þarf því skipulagi eftir með festu. Tryggja ber að skipulagðar séu götur og göngustígar á milli tjaldraða sem unnt er að komast eftir til að sinna nauðsynlegustu öryggis- og heilbrigðisþjónustu í neyðartilvikum.
9. Mótshaldari skal hafa á að skipa nægilega mörgum starfsmönnum til virkrar gæslu á tjaldsvæðum og eftirliti á mótssvæði. Skulu þeir veita lögreglu aðstoð sé hennar óskað. Lögreglustjóra ber að ganga úr skugga um að nægilegur mannafli verði tryggður í því skyni.
10. Mikilvægt er að tryggja nægilega lýsingu á myrkum svæðum, t.d. á bílastæðum, við salerni, tjaldsvæði, matartjöld og við lögreglu- og heilsugæslumiðstöð.
11. Lögreglustjóri skal áskilja sér þann rétt að setja frekari skilyrði fyrir skemmtanaleyfi en að framan greinir, svo og til að breyta skilyrðum ef í ljós kemur að slíkt er nauðsynlegt vegna öryggissjónarmiða að mati lögreglustjóra eða fulltrúa hans, sem hefur eftirlit með að þessum skilyrðum sé fullnægt. Lögreglustjóra er heimilt að afturkalla leyfið án skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð, telji hann þess þörf vegna öryggissjónarmiða eða öðrum ástæðum. Gæta skal þess að samkomuhaldara sé veittur andmælaréttur áður en slík ákvörðun er tekin.
Ofangreindar viðmiðunarreglur eru einkum miðaðar við fjölsóttari hátíðir sem haldnar eru utanhúss og samkomugestir gista næturlangt í tjöldum, þar sem slíkar hátíðir kalla á útgáfu skemmtanaleyfis. Reglurnar taka mið af niðurstöðum starfshóps dómsmálaráðuneytisins sem skipaður var á sínum tíma til að fara yfir reglur og lagaumgjörð varðandi útihátíðir. Ráðuneytið bendir á skýrslu starfshópsins en þar er að finna ítarlega úttekt á öllum öryggisþáttum vegna útihátíða. Í dreifibréfi sínu 27. júní vakti ráðuneytið jafnframt athygli á nýlegri breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem úthátíðir (ýmist nefndar útihátíðir eða útisamkomur) eru gerðar starfsleyfisskyldar. Í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 er að finna nánari útfærslu á framkvæmd starfsleyfisumsóknar vegna útihátíða. Skal umsókn fyrir útihátíðir ásamt fylgigögnum send heilbrigðisnefnd með minnst tveggja vikna fyrirvara, sbr. 33. gr. reglugerðarinnar.

Efld löggæsla og upplýsingamiðstöð umferðarmála
Margvíslegar aðgerðir og viðbúnaður er fyrirhugaður hjá stofnunum sem undir dómsmálaráðuneytið heyra um verslunarmannahelgina. Umferðareftirlit á þjóðvegum landsins verður aukið til muna og koma öll lögregluembætti landsins að því. Áhersla verður lögð á notkun öryggisbúnaðar og bann við hraðakstri og ölvunarakstri. Leitast verður við að tryggja greiða og örugga umferð þar sem búast má við miklu álagi. Fíkniefnaeftirlit lögreglu verður á helstu útihátíðum. Embætti ríkislögreglustjóra annast heildarskipulagningu þessa löggæsluverkefnis í samvinnu við lögreglustjóra og verður nánari framkvæmd löggæslu kynnt sérstaklega af ríkislögreglustjóra.

Umferðarstofa starfrækir upplýsingamiðstöð umferðarmála um verslunarmannahelgina. Þaðan verður reglulega miðlað upplýsingum til almennings og fjölmiðla um umferð, ástand vega og annað sem tengist umferð og umferðaröryggi.

Allar nánari upplýsingar veitir Jón Þór Ólason, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
22. júlí 2003.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum