Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Friðun rjúpnastofnsins


Rannsóknir á rjúpu undanfarin ár og endurskoðun eldri gagna benda til þess að rjúpnastofninn sé nú í lágmarki þ.e. toppar í hámarksárum hafa farið lækkandi og sveiflur að jafnast út, og að stofninum hefur hrakað jafnt og þétt frá sjötta áratug síðustu aldar. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands ráða áhrif skotveiða miklu og hafa ber í huga að skotveiðarnar eru eini affallaþátturinn sem stjórnvöld geta haft áhrif á til skemmri tíma litið. Veiðarnar ganga á stofninn og draga verulega úr möguleikum hans til það komast upp úr núverandi lægð. Þess vegna hefur umhverfisráðherra ákveðið að nýta ekki heimild laga næstu þrjú árin til þess að aflétta friðun rjúpunnar. Rjúpan verður þar af leiðandi friðuð fyrir veiðum árin 2003, 2004 og 2005. Rjúpnaveiðar munu hefjast aftur haustið 2006.

Ákvörðun ráðherra byggist á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á ástandi rjúpnastofnsins frá því 21. ágúst 2002, nýjustu rjúpnatalningum, nýju endurmati á ástandi stofnsins og veiðitölum undanfarinna ára. Hún byggir jafnframt á niðurstöðum umhverfisnefndar Alþingis frá því 5. mars sl. þar sem nefndin leggur til að fallið verði frá því að banna sölu á rjúpum og í stað þess verði leitað annarra leiða til að vernda rjúpnastofninn. Umhverfisnefnd Alþingis benti á að nauðsynleg ákvæði séu þegar í lögum til að takmarka veiði og beindi því til umhverfisráðherra að stytta veiðitímabilið þar sem hún taldi það vænlegra til árangurs til að vernda rjúpnastofninn en sölubann. Í samræmi við tillögu nefndarinnar hafnaði Alþingi því að setja í lög heimild til þess að setja sölubann á rjúpur. Í kjölfar niðurstöðu Alþingis óskaði umhverfisráðuneytið eftir tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um aðgerðir til að draga úr veiðiálagi á rjúpnastofninn þar sem Alþingi hafnaði sölubanni á rjúpu. Stofnunin lagði til algjört veiðibann í fimm ár og að sá tími verði notaður til þess að huga að frekari aðgerðum til styrktar rjúpnastofninum.

Umsagnir vegna tillagna Náttúrufræðistofnunar hafa komið frá Umhverfisstofnun, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélagi Íslands og Skotveiðifélagi Íslands. Samstaða er meðal þessara aðila um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til verndunar rjúpnastofninum. Einhugur er þó ekki um til hvaða ráðstafana árangursríkast væri að grípa.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að banna rjúpnaveiði næstu 3 árin, þ.e. 2003, 2004 og 2005. Jafnframt verður skipuð nefnd sem falið verður að gera tillögur um fyrirkomulag rjúpnaveiða að loknu veiðibanninu. Í nefndinni skal m.a. fjalla um

  • griðarsvæði
  • veiðikvóta,
  • lengd og tímasetningu veiðitíma rjúpu,
  • notkun farartækja á veiðislóð og
  • veiðiaðferðir s.s. skotvopn og notkun veiðihunda.

Fréttatilkynning nr. 25/2003
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta