Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samnings um dreifmenntun í grunnskólum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi

Undirritun samnings um dreifmenntun í grunnskólum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.


Miðvikudaginn 20. ágúst undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Brynjólfur Gíslason, bæjarstjóri Vesturbyggðar og Ólafur Magnús Birgisson sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps samning um tilraunaverkefni um dreifmenntun í grunnskólum sveitarfélaganna. Með dreifmenntun er aðferðum fjarnáms/kennslu og staðbundins náms/kennslu beitt saman. Þannig er stuðlað að því að jafna möguleika nemenda til náms og nýta betur sérþekkingu kennara óháð búsetu. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur standa í sameiningu að verkefninu, en markmið þess er að kanna möguleika og kosti dreifmenntunar við að auka gæði og framboð náms og draga úr kostnaði á grunnskólastigi í dreifbýli. Verkefnið er liður í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar og samkomulagi menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um átak á sviði byggðamála.

Grunnskólar í Vesturbyggð og á Tálknafirði eru fámennir og er skólahald dreift, en kennsla í Grunnskóla Vesturbyggðar fer fram á þremur stöðum; á Barðaströnd, Patreksfirði og Bíldudal. Vegalengdir á milli þessara staða eru miklar og möguleikar á að tengja saman skólastarf með akstri nemenda á milli skólahverfa eru takmarkaðir. Það hefur því reynst erfitt að samnýta krafta kennara og kenna nemendum í sömu aldurshópum saman. Meginmarkmið verkefnisins er að nýta upplýsingatækni í þágu fræðslustarfs í grunnskólum í dreifbýlum sveitarfélögum og leitast þannig við að efla það og bæta og styrkja stöðu byggðanna. Helstu áhersluatriðin eru:

  • Að þróa samkennslu og efla samstarf milli skóla á svæðinu
  • Að auka og bæta gæði og fjölbreytni námsins
  • Að kanna möguleika á hagræðingu í skólahaldi með auknu samstarfi á milli skóla með upplýsinga- og samskiptatækni.

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps hefur yfirumsjón með tilraunaverkefninu og hefur verkefnisstjórn á hennar vegum unnið að undirbúningi þess í eitt ár. Í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands hefur verið unnið að kennslufræðilegri útfærslu verkefnisins og kennarar sótt sérstök námskeið til undirbúnings. Farið hefur fram greining og útfærsla á netkerfum skóla og tölvubúnaður verið efldur. Í haust verður byrjað að kenna í nokkrum námsgreinum með fyrirkomulagi dreifmenntunar.

Fjárframlag til verkefnisins nemur 15 m. kr. á ári í þrjú ár. Árangur verkefnisins verður metinn og er lögð áhersla á að kynna niðurstöðurnar fyrir öðrum sveitarfélögum.

Menntamálaráðuneytið, 20. ágúst 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum