Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundir umhverfisráðherra Norðurlandanna Barentsráðsins og Eystrasaltsráðsins


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sat í dag fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna og Barentsráðsins í Luleå í Norður Svíþjóð. Á morgun situr hún fund umhverfisráðherra Eystrasaltsráðsins á sama stað.

Umhverfisráðherra kynnti áherslur Íslands í norrænu samstarfi á umhverfissviði á næsta ári þegar Ísland fer með formennsku í samstarfinu. Áhersla verður annars vegar á það hvaða áhrif loftslagsbreytingar og mengun gæti haft á Norðurheimsskautssvæðið, sérstaklega hafið; og hins vegar á náttúruvernd og gildi þjóðgarða og friðlýstra svæða á norðurslóðum. Ráðgert er að halda tvær ráðstefnur á Íslandi á næsta ári um þessi mál.

Norrænu umhverfisráðherrarnir ræddu á fundinum þá ógn sem steðjar að vegna kvikasilfurs sem borist getur langar leiðir frá fjarlægum uppsprettum m.a. vegna bruna á kolum og safnast upp í lífríkinu á Norðurheimsskautssvæðinu. Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi þeirra ríkja sem þrýsta á um alþjóðlegar aðgerðir og sendu ráðherrarnir bréf frá fundinum til framkvæmdastjórnar ESB þar sem lögð er áhersla á mikilvægi aðgerða ESB á þessu sviði.

Einnig var fjallað um stuðning norrænu ríkjanna við uppbyggingarstarf á umhverfissviðinu í Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur Rússlandi sem m.a. á sér stað fyrir stuðning Norræna umhverfisfjárfestingasjóðsins (NEFCO) sem Ísland hefur lagt fjármagn til. Nú er unnið að því að hækka stofnframlag sjóðsins.

Ráðherrarnir ræddu einnig um loftslagsmál og hugsanlegar afleiðingar þeirra m.a. á norðurheimsskautssvæðinu og mikilvægi þess að Rússland fullgilti Kyoto bókunina þannig að hún gengi í gildi. Undirbúningur fyrir 9. aðildarríkjaþing loftslagssamningsins í Mílanó í desember var einnig til umræðu.

Á fundi umhverfisráðherra Barentsráðsins var lögð fram og samþykkt samantekt NEFCO og umhverfisvöktunarnefndar Norðurskautsráðsins (AMAP) um forgangsverkefni í mengunarvörnum á norðursvæðum Rússlands. Umtalsverður árangur hefur náðst í því að draga úr mengun frá svæðinu og hefur t.d. brennisteinsmengun frá Múrmansk svæðinu dregist saman um 40% frá 1996 meðal annars vegna aðgerða sem Norðurlöndin hafa fjármagnað.

Frekari upplýsingar veitir Halldór Þorgeirsson í síma 896 2130.
Fréttatilkynning nr. 27/2003

Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta