Leiðtogafundir um upplýsingasamfélagið
29. ágúst 2003
Leiðtogafundir um upplýsingasamfélagið (WSIS) 2003 og 2005
Ákveðið hefur verið að halda leiðtogafund um upplýsingasamfélagið (World Summit on the Information Society) á vegum Sameinuðu þjóðanna en undir hatti Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU). Leiðtogafundurinn verður haldinn annars vegar í Genf 10. - 12. desember 2003 og hins vegar í Túnis árið 2005. Markmið leiðtogafundarins er í raun sá að freista þess að þróa sameiginlega sýn og skilning á upplýsingasamfélaginu og þeirri byltingu sem orðið hefur í allri upplýsingatækni. Fyrirhugað er að fjalla um og samþykkja yfirlýsingu og vinnuáætlun um málefni upplýsingsamfélagsins.
Gert er ráð fyrir að fundinn sæki hátt settir einstaklingar til að ræða þessi mál. Einnig er gert ráð fyrir þátttöku opinbera- og einkageirans, ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, frjálsra félagasamtaka, borgarasamfélagsins svo eitthvað sé nefnt.
Innan stjórnarráðsins er starfandi vinnuhópur sem undirbýr þátttöku Íslands í fundinum. Menntamálaráðherra mun sækja fundinn ásamt íslenskri sendinefnd. Einnig hefur hagsmunaaðilum verðið bent á að setja sig í samband við menntamálaráðuneyti hafi þeir áhuga á að sækja fundinn.