Ræða Halldórs Ásgrímssonar á fimmtu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO)
Nr. 083
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, tók í dag til máls á aðalfundi fimmtu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem hófst í gær miðvikudaginn 10. september í Kankún, Mexíkó.
Þar eru saman komnir ráðherrar frá flestum löndum heims til að fjalla um stöðu yfirstandandi samningaviðræðna á vegum stofnunarinnar um aukið frelsi í heimsviðskiptum sem ýtt var úr vör á ráðherrastefnu sem haldin var í Doha fyrir tveimur árum. Markmiðið er ekki að ljúka viðræðunum á þessum fundi, heldur reyna ráðherrarnir að leysa úr þeim ágreiningi sem upp er kominn milli samningamanna á hinum ýmsu sviðum viðræðnanna. Deilur um landbúnað eru þar mest áberandi. Stefnt er að því að ná samkomulagi 14. september n.k. um ramma sem samningamenn eiga að styðjast við í áframhaldandi samningaviðræðum.
Í upphafi máls síns minntist ráðherra nýlátinnar starfssystur sinnar, Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Í ræðu sinni lagði utanríkisráðherra áherslu á hversu mikilvægt það væri að þjóðir heims semdu um réttlátar reglur í viðskiptum sín á milli. Hann ítrekaði jafnframt mikilvægi þess að þjóðir heims hefðu svigrúm til að taka tillit til ólíkra framleiðsluskilyrða í landbúnaði af náttúrunnar hendi. Hann benti á að taka yrði tillit til þess að allar þjóðir ættu að hafa rétt til að viðhalda kunnáttu til að lifa af landi sínu. Þess vegna gætu ekki sömu reglur gilt fyrir landbúnað og aðrar greinar sem geta búið við sambærileg framleiðsluskilyrði óháð ytri aðstæðum.
Utanríkisráðherra fjallaði einnig um aðra mikilvæga þætti viðræðnanna og fylgir ræða hans fréttatilkynningunni.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. september 2003.