Dómur Hæstaréttar í máli Samvinnuferðar Landsýnar
Fimmtudaginn 18. september 2003 var í Hæstarétti kveðinn upp dómur í máli Kaupþings Búnaðarbanka hf., Flutninga ehf., Kers hf. og Framtaks fjárfestingarbanka hf gegn samgönguráðuneytinu.
Fyrirtækin fjögur áfrýjuðu dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem viðurkenndi ábyrgðaryfirlýsingu þeirra til tryggingar rekstri ferðaskrifstofunnar Samvinnuferðar Landsýnar hf. Hæstiréttur sneri dóminum við og sýknaði áfrýjendur af kröfu ríkisins um að ábyrgðaryfirlýsingin stæði til tryggingar kröfum viðskiptavina ferðaskrifstofunnar, sem varð gjaldþrota þann 28. nóvember 2001.
Málavextir eru þeir að samkvæmt lögum nr. 117/1994 um skipulag ferðamála er ferðaskrifstofu skylt að leggja fram tryggingar vegna starfsemi sinnar. Fullnægjandi tryggingar eru skilyrði rekstrarleyfis sem samgönguráðuneytið veitir lögum samkvæmt. Trygging er sett fram til að standa undir kostnaði við heimflutning farþega sem staddir eru erlendis og til endurgreiðslu innborgana á ferðir sem ekki hafa verið farnar, ef ferðaskrifstofa verður gjaldþrota. Neytendaverndarsjónarmið liggja til grundvallar þessum reglum. Í kjölfar gjaldþrots Samvinnuferða Landsýnar hf. hefur samgönguráðuneytið lagt út fyrir slíkum kostnaði samtals að fjárhæð um 30 milljónir króna.
Trygging Samvinnuferða Landsýnar hf.
Ráðuneytið hafði undir höndum bankaábyrgðir og aðrar tryggingar frá ferðaskrifstofunni en þær voru tímabundnar og runnu út 1. október 2001 að undanskilinni ábyrgð að fjárhæð 6 milljónir sem enn er í gildi.
Ráðuneytið hafði ítrekað krafist þess að lagðar yrðu fram nýjar tryggingar til að ekki þyrfti að svipta SL hf. ferðaskrifstofuleyfi. Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar áttu í erfiðleikum með að leggja fram fullnægjandi tryggingar og í því formi sem 19. gr. laganna mælir fyrir um, þ.e. reiðufé, bankaábyrgðir eða vátryggingu hjá tryggingarfélagi. Hins vegar buðu forsvarsmenn félagsins að leggja fram ábyrgð frá fjórum stærstu hluthöfum ferðaskrifstofunnar.
Á elleftu stundu, 28. september 2001, tveimur dögum áður en þær tryggingar sem ráðuneytið hafði undir höndum runnu út, afhentu forsvarsmenn félagsins ábyrgðaryfirlýsingu frá hluthöfunum. Um var að ræða fjársterka aðila sem hafa verið í forystu í íslensku viðskiptalífi til margra ára, banka og eignarhaldsfélög.
Ráðuneytið mat þessar ábyrgðir sem fullnægjandi tryggingu og heimilaði áframhaldandi ferðaskrifstofurekstur. Það mat var staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Deilur um ábyrgðaryfirlýsinguna
Í kjölfar gjaldþrots ferðaskrifstofunnar og þegar ljóst var að á ábyrgð hluthafanna myndi reyna, reis upp ágreiningur um efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Hluthafarnir skýrðu orð og efni yfirlýsingarinnar með öðrum hætti en ráðuneytið. Þeir mótmæltu því að um gilda ábyrgð væri að ræða samkvæmt lögum um skipulag ferðamála.
Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að öllum þeim einstaklingum sem áttu lögmæta kröfu í tryggingaféð hefur verið greitt út og þannig hefur verið tryggt að neytendur hafa ekki orðið fyrir tjóni af völdum hinnar ógildu tryggingar.
Í máli þessu tók ráðuneytið ívilnandi ákvörðun til að tryggja hagsmuni viðskiptavina Samvinnuferða Landsýnar hf. Ráðuneytið stóð frammi fyrir því að stöðva rekstur stærstu ferðaskrifstofu landsins, sem hefði haft í för með sér að fjöldi manns misstu vinnuna og viðskiptavinir yrðu fyrir tjóni. Í stað þess heimilaði ráðuneytið áframhaldandi rekstur í trausti þess að ábyrgðaryfirlýsingin frá hluthöfunum væri fullnægjandi trygging lögum samkvæmt og að við hana yrði staðið ef á reyndi. Því lýsir ráðuneytið yfir vonbrigðum sínum yfir því að þessir fjórir stærstu hluthafar í Samvinnuferðum Landsýn hafi ekki reynst þess trausts verðir sem ráðuneytið bar til þeirra. Fyrirtækin sem um ræðir hafa skipt um nafn og/eða eigendur á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að yfirlýsingin var gefin út. Á þeim tíma var um að ræða Gildingu ehf., Flutninga ehf., Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. og Olíufélagið hf.