Sérstök áhersla á samstarf æðri menntastofnana
Þriðji ráðherrafundur Bologna ferlisins um samstarf á sviði æðri menntunar í Evrópu var haldinn í Berlín 18. og 19. september 2003. Af Íslands hálfu sótti Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, fundinn. Á fundinum lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með árangurinn sem náðst hefur í átt til nánara samstarfs á grundvelli Bologna yfirlýsingarinnar sem 29 lönd, þar á meðal Ísland, undirrituðu 1999. Þeir staðfestu þann ásetning sinn að efla samstarfið og auka það í framtíðinni.
Í ræðu sinni á fundinum lagði menntamálaráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi nýs þáttar Bologna ferlisins, sem bætt var við í Berlín, en það er að efla samstarf æðri menntastofnana og rannsóknastofnana. Einnig ræddi ráðherra mikilvægi símenntunar til að gefa sem flestum tækifæri til að afla sér æðri menntunar án tillits til aldurs eða búsetu og bætti við að símenntun ætti að vera sjálfsagður hluti af öllu skólastarfi.
Bologna yfirlýsingin stefnir að því að gera Evrópu að einu samfelldu menntunarsvæði fyrir 2010. Hún er viljayfirlýsing og framkvæmd hennar byggist á áhuga hlutaðeigandi aðila í hverju landi á að vinna á grundvelli hennar, bæði stjórnvalda, æðri menntastofnana, starfsfólks þeirra og nemenda.
Þótt ekki sé um lagalega bindandi fyrirmæli að ræða er talið mikilvægt að gera æðri menntun í löndunum sambærilegri, m.a. í þeim tilgangi að auðvelda nemendum og kennurum að flytja milli landa til að afla sér menntunar og starfa á sameiginlegum vinnumarkaði álfunnar. Til að auðvelda þetta er stefnt að því að allir, sem útskrifast úr háskólum með prófskírteini sínu, fái lýsingu á innihaldi námsins sem nefnt hefur verið "Diploma supplement".
Til þess að gera nám milli landa sambærilegra ákváðu ráðherrarnir í Bologna að stefna að því að öll löndin tækju upp kerfi sem byggðist á BA-gráðu og MA-gráðu eins og tíðkast hefur á Íslandi um áratugaskeið. Löndin, sem höfðu önnur kerfi fyrir 1999, hafa flest hafið breytingaferlið. Þessi samræming auðveldar nemendum einnig að afla sér prófgráðu með því að stunda nám í tveim háskólum, sitt í hvoru landi. Tilraunir eru nú gerðar með slíkt fyrirkomulag en í flestum löndum þarf lagabreytingu til þess að það nái fram að ganga.
Auk sambærilegs náms leggur Bologna yfirlýsingin áherslu á eflingu gæðamats og er hreyfanleiki nemenda og kennara milli landa talin forsenda þess að koma á samfelldu menntunarsvæði í Evrópu. Þess vegna er lagt til að hindrunum, sem enn hamla þessum hreyfanleika, sé rutt úr vegi.
Sem fyrr segir er markmiðinu um aukið samstarf æðri menntastofnana og rannsóknastofnana um rannsóknamenntun bætt við Bologna ferlið í Berlín.
Hvatt er til aukins hreyfanleika doktorsnema og þeirra sem lokið hafa doktorsnámi og eflingu samstarfs milli stofnana um doktorsnám og þjálfun ungra rannsóknamanna.
Í Berlínaryfirlýsingunni ákveða ráðherrarnir að leggja sérstaklega áherslu á það fram að næsta fundi sínum 2005 að efla gæðamat, koma á BA og MA kerfi og vinna enn betur að því að koma á gagnkvæmri viðurkenningu prófgráða.
Bologna ferlið er skipulagt kringum ráðherrafundi sem haldnir eru annað hvert ár. Næsti fundur verður í Bergen í Noregi í júní 2005. Við upphaf Berlínarfundarins höfðu 33 lönd undirritað Bologna yfirlýsinguna en á þeim fundi bættust 7 í hópinn: Albanía, Andorra, Bosnía Hersegóvína, Fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía, Rússland, Serbía og Svartfjallaland og Vatíkanið.
Þar sem allir hlutaðeigandi aðilar í hverju landi verða að taka virkan þátt í framkvæmd Bologna ferlisins er samtökum háskóla og samtökum stúdenta í Evrópu boðið að sitja ráðherrafundina og einnig sitja þá fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.