Hoppa yfir valmynd
22. september 2003 Dómsmálaráðuneytið

Útgáfa Lagasafns 2003

Fréttatilkynning 22/2003
22. september 2003

Útgáfa Lagasafns 2003.



Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra tók í dag við fyrsta eintaki Lagasafns 2003, sem inniheldur gildandi lög 1.júlí s.l.. Lagasafn var síðast gefið út í bók í nóvember 1999 og hafði að geyma gildandi lög hinn 1. október 1999. Lagasafnið er nú í einu bindi og er það 1842 blaðsíður, en var 1624 blaðsíður síðast. Nemur aukningin því 218 blaðsíðum. Pappír er hins vegar þynnri nú en síðast og er því lagasafnið álíka þykkt og þá. Lagasafnið verður nú fáanlegt bæði í hörðu bandi og sem kilja.

Ritstjóri Lagasafnsins er Viðar Már Matthíasson prófessor,, en auk hans skipa ritstjórn safnsins þeir Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, formaður, Friðrik Ólafsson skrifstofustjóri Alþingis, Jón Thors fv. skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu , Ólafur W. Stefánsson fv. skrifstofustjóri í dóms - og kirkjumálaráðuneytinu og Sigurður Líndal prófessor emeritus. Af hálfu Alþingis hefur Friðrik Magnússon séð um hina rafrænu uppfærslu lagasafnins og haft með höndum að búa það til prentunar og einnig hefur Aagot Óskarsdóttir lögfræðingur komið þar að verki.

Varðveislu texta Lagasafns í tölvutæku formi og innfærslu breytinga og uppsetningu fyrir prentvinnslu hefur skrifstofa Alþingis annast. Prentun og bókband safnsins er unnið Pjaxa ehf. í samvinnu við fyrirtæki í Slóveníu.

Texti Lagasafns er jafnframt aðgengilegur á heimasíðu Alþingis , www.althingi.is.

Dreifingu Lagasafnsins 2003 til bóksala og stofnana annast Ríkiskaup, Borgartúni 7, Reykjavík.

Lagasafnið nú inniheldur tvenn nýmæli hvað efni varðar. Í fyrsta lagi er í framhaldi af heiti og númeri hverra laga birtur gildistökudagur þeirra, svo og öll breytingalög og gildistökudagur þeirra. Þegar við á er einnig tiltekið hvenær viðkomandi lög eða einstakir hlutar þeirra koma til framkvæmda. Birting þessara upplýsinga er mikilvæg fyrir þá sem sinna rannsóknum í lögfræði. Í öðru lagi er tiltekið ef lög er sett, eða þeim breytt, vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Er þá leitast við að tilgreina hvaða viðauki samningsins á við, þegar um slíkt er að ræða, og þá stofngerð sem íslensku lögin eiga rót sína í. Þetta er nánar útlistað í formála lagasafnsins, en ástæða þess að merkja þarf lög sem stafa frá EES-gerðum sérstaklega er að þá kunna aðrar túlkunarreglur að eiga við en um önnur lög.

Þetta er í 12. skipti, sem lagasafn er gefið út. Útgáfan hófst með útgáfu Lagasafns handa alþýðu, sem Magnús Stephensen landshöfðingi og Jón Jensson yfirdómari stóðu að og síðar Jón Magnússon bæjarfógeti með Jóni Jenssyni. Náði það ritverk til laga sem í gildi voru við lok ársins 1910. Einar Arnórsson prófessor gaf einnig út Lög Íslands sem náði til laga sem í gildi voru til ársins 1908. Varð síðan langt hlé á útgáfu lagasafna eða til ársins 1932, er út kom lagasafn með lögum sem í gildi voru í árslok 1931. Undirbjó Ólafur Lárusson prófessor þá útgáfu. Síðan hefur lagasafnið komið út 1945, 1954, 1965, 1973,1983, 1990, 1995, 1999 og nú 2003. Miðað hefur verið við það á síðustu árum að Lagasafn sé jafnan gefið út á fjögurra ára fresti.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
22. september 2003.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta