Sameiginleg ræða Norðurlandanna á ársfundi Alþjóðabankans í Dubai
Nr. 092
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Sameiginleg fréttatilkynning utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis
Geir H. Haarde fjármálaráðherra flutti í dag sameiginlega ræðu fyrir hönd Norðurlandanna á ársfundi Alþjóðabankans, sem nú er haldinn í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra er aðalfulltrúi í bankaráði Alþjóðabankans og Geir H. Haarde fjármálaráðherra er varafulltrúi.
Í máli sínu fjallaði fjármálaráðherra um skuldbindingar alþjóðasamfélagsins frá Monterrey árið 2002 og um mikilvægi samábyrgðar og samvinnu iðnríkja og þróunarlanda ef þúsaldarmarkmiðin um minnkun fátæktar eiga að nást fyrir árið 2015. Ráðherrann lagði áherslu á nauðsyn bættrar og samræmdari þróunaraðstoðar, sem veita yrði í auknum mæli á forsendum þróunarríkjanna sjálfra. Hvatti hann iðnríki og Alþjóðabankann til að stíga frekari skref í þessa átt.
Fjármálaráðherra hvatti jafnframt til aukinnar aðkomu þróunarríkja að starfi og ákvarðanatöku í Alþjóðabankanum og aukins atkvæðavægis þeirra innan stofnunarinnar. Ráðherrann gerði einnig átak til niðurfellingar skulda fátækustu ríkja heims að umtalsefni og lýsti yfir áhyggjum af skuldastöðu margra þróunarríkja. Hann ræddi mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið tryggði átakinu nauðsynlega fjármuni og sanngjarna skiptingu kostnaðar.
Ennfremur kom fjármálaráðherra inn á mikilvægi frjálsra viðskipta fyrir fátækari ríki heims og lýsti vonbrigðum Norðurlanda með niðurstöður nýliðinnar ráðherraráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Kankún.
Alþjóðabankinn var stofnaður árið 1944 og var Ísland á meðal 28 stofnríkja. Í dag eru aðildarríki bankans 184 talsins. Í október n.k. tekur Þorsteinn Ingólfsson sendiherra sæti í stjórn Alþjóðabankans sem fulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
Meðfylgjandi er ræða fjármálaráðherra.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. september 2003