Ársfundur NAFO 2003 í Kanada.
24. september 2003.
Fréttatilkynning
Dagana 15.-19. september sl. var haldinn í Dartmouth, Nova Scotia í Kanada, 25. ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO.
Á dagskrá fundarins var ákveðið heildaraflamark og stjórn veiða á NAFO svæðinu, sem er hafsvæðið vestan og sunnan Hvarfs á Grænlandi. Þrjú málefni sem varða veiðar Íslendinga voru til umræðu. Í fyrsta lagi að ákveða fyrirkomulag rækjuveiða á Flæmingjagrunni fyrir árið 2004, í öðru lagi að ræða breytingar á eftirliti með veiðum á svæðinu og í þriðja lagi að ákveða stjórnun veiða á úthafskarfa á samningssvæði NAFO.
Eftirlitsmenn
Fyrir fundinum lá tillaga um tilraunaverkefni um breytt eftirlit á samningssvæði NAFO. Tillagan gerði ráð fyrir að draga mætti verulega úr fjölda eftirlitsmanna gegn mun nákvæmari upplýsingagjöf um veiðarnar, í gegnum gervihnetti. Byggir tillagan á hugmyndum og tæknilegum útfærslum Íslendinga og hefur verið til umræðu á ársfundum NAFO í mörg ár.
Tillögur Íslendinga gerðu ráð fyrir umtalsverðri fækkun eftirlitsmanna og að gerður yrði samanburður á þeim skipum sem hefðu eftirlitsmenn um borð og þeim sem einungis væru með gervihnattaeftirlit. Sú tillaga sem var samþykkt gerir ráð fyrir að eftirlitsmenn verða í helmingi fiskiskipa. Öll fiskiskip Íslendinga uppfylla tæknileg skilyrði fyrir þátttöku í þessu tilraunaverkefni. Með þessari breytingu er áralangri baráttu fyrir fækkun eftirlitsmanna að skila árangri og sparast mikið fjármagn vegna eftirlits með samþykktinni, bæði við rækjuveiðar á Flæmingjagrunni og einnig við úthafskarfaveiðar á NAFO svæðinu.
Rækja
Fram kom hjá vísindanefnd NAFO að ástand rækjustofnsins á Flæmingjagrunni sé gott. Samþykkt var óbreytt stjórn á veiðunum fyrir árið 2003 og að dagafjöldinn yrði sá sami og á árinu 2003. Ísland hefur frá því að NAFO samþykkti að taka upp sóknarstýringu til stjórnunar á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni árið 1995 mótmælt því fyrirkomulagi. Mótmæli þessi voru tilkomin vegna efasemda íslenskra stjórnvalda um að hægt væri að stjórna veiðunum með sóknarstýringu en Ísland hefur frá upphafi lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland ítrekaði mótmæli sín við sóknarmarkskerfið og mun áfram stjórna veiðunum einhliða með aflamarki, sem ákveðið verður á næstu mánuðum.
Úthafskarfi
Frá því úthafskarfaveiðar hófust hafa veiðarnar nánast eingöngu verið stundaðar austan samningssvæðis NAFO, þ.e. á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Á undanförnum árum hefur veiði aukist á NAFO svæðinu samfara því að úthafskarfastofninn hefur færst inn á samningssvæði þess. Erfitt hefur reynst að ná stjórn á þeim veiðum vegna þess að ákvörðun NEAFC hefur ekki verið bindandi fyrir þær þjóðir sem ekki eru aðilar að þeim samtökum og hafa þau því gert tilkall til hlutdeildar í stofninum. Til að reyna að ná heildarstjórn á veiðunum varð samkomulag um að þeim þjóðum yrði úthlutað 7.500 tonnum af úthafskarfa árið 2004. Þetta er samskonar fyrirkomulag og gildir fyrir 2003.
Formaður íslensku sendinefndarinnar var Þórir Skarphéðinsson lögfræðingur í Sjávarútvegsráðuneytinu.
Sjávarútvegsráðuneytið.