Yfirlýsing frá ráðherrafundi Norrænu ráðherranefndarinnar
Samstarf í baráttunni gegn fíkniefnum
Í viljayfirlýsingunni leggja ráðherrarnir átta m.a. áherslu á að sameiginlegt átak almennt og í tilteknum málaflokkum þar sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin vinna saman sé raunhæft svar við vaxandi vanda. Lögðu ráðherrarnir í málflutningi sínum áherslu á að baráttan gegn fíkniefnaneyslu yrði að byggjast á þremur megin þáttum. Á forvörnum, á hertu löggæslu-og tollaeftirliti og meðferð.
Viljayfirlýsing ráðherranna gerir ráð fyrir að þjóðirnar miðli á milli sín hvers kyns upplýsingum sem snerta baráttuna gegn fíkniefnum, að þær grípi til aðgerða gegn skipulögðum glæpum og fíkniefnasölu og styðji raunhæfa endurhæfingu þeirra sem orðið hafa fíkniefnum að bráð. Á fundinum kom fram að glæpir sem tengjast sölu og dreifingu fíkniefna verða æ alþjóðlegri og voru ráðherrarnir sammála því að með auknu samstarfi þjóðanna opnaðist möguleikinn á enn öflugri baráttu gegn glæpum sem byggjast á sölu og dreifingu eiturlyfja.
Á ráðherrafundinum í Lundi gerðu ráðherrarnir hver fyrir sig grein fyrir stöðu mála og fyrirætlunum yfirvalda í baráttunni gegn fíkniefnum í löndunum. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, gerði grein fyrir áherslum ríkisstjórnarinnar á þessu sviði almennt með vísan til stjórnarsáttmálans og dró fram dæmi um þann árangur sem náðst hefur í þessari baráttu á Íslandi. Undirstrikaði Árni sérstaklega mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og sagðist binda vonir við að viljayfirlýsing ráðherranna átta væri upphaf ennþá öflugri baráttu gegn smygli, fíkniefnaneyslu og dreifingu fíkniefna í löndunum.
Fram kom af hálfu fulltrúa frá Eystrasaltsríkjunum að fíkniefnavandi þar er umtalsverður og vaxandi og að auk vandans glímdu yfirvöld við þá staðreynd að straumur fíkniefna til annarra landa færi í auknum mæli um Eystrasaltslöndin, ekki minnst til Norðurlandanna. Er meðal annars af þessum sökum gagnkvæmur áhugi á sameiginlegri stefnumörkun í baráttunni gegn fíkniefnum í bráð og lengd í löndunum þremur, auk þess að vinna saman að tilteknum verkefnum á öllum sviðum sem snerta fíkniefnamál.
Hjálagt:
Viljayfirlýsing ráðherranna (Letter of intent)
Tengt efni:
Ávarp félagsmálaráðherra á fundi ráðherranefndarinnar í dag