Fundir utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York
Nr. 097
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sem nú er staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York, sat í gær, miðvikudaginn 24. september, óformlegan fund utanríkisráðherra Norðurlandanna. Ráðherrarnir ræddu m.a. þörfina á endurbótum og endurskipulagningu á stofnunum Sameinuðu þjóðanna og fögnuðu frumkvæði Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra að setja á fót nefnd háttsettra einstaklinga til að koma með tillögur um þetta mál.
Ráðherrarnir ræddu einnig framkvæmd markmiða leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna á sviði þróunarmála, mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða á sviði öryggismála og framboðsmál.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra hefur ennfremur undanfarna daga átt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Mósambík, Úganda, Namibíu, Malaví, Óman, Jórdaníu, Jamaica, Kúbu, auk forsætisráðherra Sri Lanka. Umræðuefni þessara funda hefur verið samstarf ríkjanna og möguleikar á frekari samvinnu. Jafnframt hefur utanríkisráðherra kynnt framboð Íslands til öryggisráðsins 2009-2010.
Utanríkisráðherra sótti jafnframt sl. þriðjudag hádegisverð í boði Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og móttöku í boði George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flytur ávarp í almennri umræðu þingsins föstudaginn 26. september og er áætlað að það hefjist um klukkan 21.00 að íslenskum tíma.
Unnt er að fylgjast með umræðunni á allsherjarþinginu í beinni útsendingu á veraldarvefnum á slóðinni: www.un.org/webcast og velja þar tengilinn "Tune into the Live Webcast".
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. september 2003