Hoppa yfir valmynd
26. september 2003 Utanríkisráðuneytið

Ársfundur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vínarborg

Nr. 098

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Þórður Ægir Óskarsson, fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í Vínarborg (International Atomic Energy Agency, IAEA), undirritaði á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var dagana 15.-19. september s.l., sérstaka viðbótarbókun við heildarsamning stofnunarinnar um öryggisráðstafanir. Viðbótarbókunin kveður á um eftirlitshlutverk stofnunarinnar með notkun og nýtingu kjarnkleyfra efna í friðsamlegum tilgangi í aðildarríkjunum og hefur tekið gildi í 36 ríkjum.

Aðild sem flestra ríkja að ofangreindum samningi og viðbótarbókun hans felur í sér mikilvæga styrkingu á öryggiseftirlitskerfi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og er eitt forgangsverkefna hennar í dag. Á ársfundi stofnunarinnar var stórefld pólitísk áhersla lögð á eflingu eftirlitshlutverks stofnunarinnar varðandi notkun og nýtingu kjarnkleyfra efna í aðildarríkjunum, ekki síst vegna vanefnda ríkja á borð við Íran og Norður-Kóreu á skuldbindingum sínum gagnvart stofnuninni.

Starfsemi Alþjóðakjarnorkumálastofnuninnar miðar að því að auka öryggi og eftirlit með nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna í friðsamlegum tilgangi í aðildarríkjunum sem eru 136 talsins. Á vettvangi stofnunarinnar fer fram margvíslegt tæknilegt og vísindalegt samstarf í þágu aukins öryggis á þessu sviði. Stofnunin sinnir þróun lagalega bindandi alþjóðasamninga um öryggi vegna friðsamlegrar nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna auk þess að vinna að fjölþættum aðgerðum gegn smygli og þjófnaði á geislavirkum efnum og úrgangi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. september 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta