Bindindisfélag ökumanna 50 ára
Bindindisfélag ökumanna 50 ára
Í tilefni 50 ára afmælis Bindindisfélags ökumanna tók dóms- og kirkjumálaráðherra á móti félögum BFÖ þann 29. september sl. í Skugga, á 4. hæð í nýju húsnæði ráðuneytisins í Skuggasundi. Ráðherra bauð gesti velkomna og hélt stutta tölu, Halldór Árnason formaður BFÖ flutti ágrip af sögu félagsins og Grétar Þorsteinsson verkalýðsleiðtogi og Dagný Jónsdóttir alþingismaður ræddu um stöðu bindindis í nútímaþjóðfélagi og reynslu sína af bindindi.
Stofnfundur BFÖ var haldinn þriðjudaginn 29. september 1953 að Skuggasundi 3 (Edduhúsinu) í Reykjavík. Á stofnfundinn mættu 12 manns sem skráðir voru formlegir stofnendur BFÖ. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Sigurgeir Albertsson.
Í fyrstu var áherslunum beint að því að efla hag þeirra ökumanna sem voru bindindismenn. Hámarki náði það starf þegar BFÖ og sænska tryggingafélagið Ansvar stofnuðu tryggingafélagið Ábyrgð hf. sem bauð bindindismönnum tryggingar gegn lægra iðgjaldi en áður þekktist.
Stofnun Ábyrgðar gaf BFÖ aukinn þrótt og vægi við að vekja athygli á helsta baráttumáli sínu í gegnum tíðina, því að áfengi og akstur fari undir engum kringumstæðum saman.
Blaðaútgáfa hefur verið mikilvægur liður í starfsemi BFÖ. Árið 1958 hleypti félagið af stokkunum fyrsta félagsriti sínu, Umferð, sem jafnframt var tímarit um umferðarmál. Það rit kom út til ársins 1965. Árið 1962 hófst útgáfa á öðru riti, Brautin, en útgáfa þess varaði í tvö ár. Árið 1966 kom út fyrsta tölublað BFÖ-blaðsins sem hefur komið út æ síðan að undanskyldum árunum 1969-1975. Fyrir tveimur árum opnaði BFÖ heimasíðu, brautin.is, þar sem er að finna greinar og ýmsan fróðleik um þau mál sem félaginu eru umhuguð.