Hoppa yfir valmynd
29. september 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stytting náms til stúdentsprófs

Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, leggur nú fram skýrslu verkefnisstjórnarinnar þar sem áhrif styttingar eru metin og nokkrum hugmyndum um mögulega útfærslu styttingar varpað fram.


Undanfarin ár hefur stytting náms til stúdentsprófs verið meðal stefnumiða íslenskra stjórnvalda. Nefnd um mótun menntastefnu skilaði fyrrverandi menntamálaráðherra skýrslu árið 1994 og í kjölfarið voru sett ný lög um grunn- og framhaldsskóla sem komu til framkvæmda 1996. Nefndin lagði jafnframt til að námstími til stúdentsprófs af bóknámsbrautum yrði styttur úr fjórum árum í þrjú. Í ársbyrjun 2002 efndi menntamálaráðuneytið til málþings um hugsanlega styttingu og í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn til að gera úttekt sem gæfi forsendur til að taka ákvörðun um hvort, og þá hvernig, ætti að stytta námstíma til stúdentsprófs.

Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, leggur nú fram skýrslu verkefnisstjórnarinnar þar sem áhrif styttingar eru metin og nokkrum hugmyndum um mögulega útfærslu styttingar varpað fram. Í skýrslunni er lagt til að námstími til stúdentsprófs á framhaldsskólastigi verði styttur um eitt ár. Til að mæta auknu kennsluálagi innan skólaársins yrði kennsludögum fjölgað um tíu, skv. þeim tillögum sem koma fram í skýrslunni.

Stytting náms til stúdentsprófs er grundvallarbreyting á íslensku menntakerfi og menntamálaráðuneytið vill leitast við að gefa almenningi og fagaðilum eins mikið vægi í þeirri ákvarðanatöku og mögulegt er. Í því augnamiði er efnt til umræðuþings á netinu um styttingu náms til stúdentsprófs. Umræðuþingið er haldið á Menntagátt menntamálaráðuneytisins, www.menntagatt.is.

Með því að skrá sig til þátttöku á umræðuþinginu gefst öllum sem áhuga hafa á þessu máli kostur á að setja sjónarmið sín fram og taka þátt í málefnalegum umræðum um breytinguna. Samhliða umræðuþinginu eru starfandi sérstakir starfshópar skipaðir fagaðilum og fulltrúum hagsmunasamtaka.

Stefnt er að því að umræðuþingið standi yfir fram eftir vetri og að starfshóparnir skili niðurstöðum sínum fyrir lok árs 2003. Í framhaldi af því mun menntamálaráðherra taka endanlega ákvörðun um hvort og hvernig skuli staðið að styttingu náms til stúdentsprófs. Það kemur síðan í hlut Alþingis að breyta lögum ef frumvarp þess efnis verður lagt fram.

Menntamálaráðuneytið 29. september 2003



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta