Hoppa yfir valmynd
29. september 2003 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York

Nr. 099

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flutti, föstudaginn 26. september 2003, ræðu í almennu umræðunni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðunni tilkynnti ráðherrann allsherjarþinginu um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009-2010. Hann fjallaði auk þess um endurbætur og endurskipulagningu á stofnunum Sameinuðu þjóðanna, mannréttindi, öryggismál og umhverfisvernd.

Þegar ráðherrann tilkynnti um framboð Íslands til öryggisráðsins 2009-2010 lagði hann áherslu á vilja Íslands til að axla sína ábyrgð innan Sameinuðu þjóðanna og leggja sitt af mörkum sem virkur meðlimur alþjóðasamfélagsins. Framboðið er þáttur í þeirri markvissu stefnu Íslands í utanríkismálum að auka og styrkja þátttöku í alþjóðasamstarfi.

Megininntak ræðu ráðherra fjallaði um nauðsyn á endurbótum og endurskipulagningu á stofnunum Sameinuðu þjóðanna, einkum allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Hann fagnaði nýrri hugmynd aðalframkvæmdastjórans um að setja á fót nefnd háttsettra einstaklinga til að koma með tillögur um helstu viðfangsefni Sameinuðu þjóðanna, allt frá öryggismálum til endurskipulagningar á stofnunum þeirra. Hann sagði Ísland hafa fullan hug á að leggja sitt af mörkum og taka virkan þátt í umræðunni um endurbætur.

Ráðherra sagði mikilvægt að Sameinuðu þjóðirnar, sérstaklega öryggisráðið, fjölluðu um málefni Íraks í því augnamiði að tryggja frið og lýðræði í landinu.

Utanríkisráðherra sagði að taka yrði fullt tillit til mannréttinda í allri starfsemi Sameinuðu þjóðanna og lagði einkum og sér í lagi áherslu á mannréttindi kvenna og barna. Hann gerði grein fyrir aðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn mansali og lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að baráttan gegn hryðjuverkum yrði ekki á kostnað mannréttinda.

Ráðherra gerði konur, frið og öryggi og ályktun öryggisráðsins nr.1325 sem fjallar um þetta mál að sérstöku umtalsefni. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að réttindi kvenna væru vernduð í vopnuðum átökum og að konum væri tryggð þátttaka í fyrirbyggjandi aðgerðum, friðargæslu og friðaruppbyggingu í samræmi við ákvæði ályktunarinnar.

Ráðherra lýsti yfir vonbrigðum vegna málaloka ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Kankún. Að hans mati er enn tækifæri til að ná árangri ef allir leggja sitt af mörkum.

Að lokum vék ráðherra að málefnum hafsins og frumkvæði íslenskra stjórnvalda um að setja á fót eftirlitskerfi til að fylgjast með ástandi heimshafanna. Hann lagði áherslu á að haldinn yrði fundur árið 2004 til að semja um nánari útfærslu á þessu kerfi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. september 2003



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta