Fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og Kofi Annan aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna
Nr. 101
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra átti fund í dag með Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Þeir ræddu tillögur aðalframkvæmdastjórans um umbætur og endurskipulagningu á stofnunum Sameinuðu þjóðanna, einkum hugmynd hans um að setja á fót ráðgjafahóp virtra einstaklinga til að greina ástand og horfur og gera tillögur um þetta mál fyrir næsta allsherjarþing. Utanríkisráðherra staðfesti stuðning Íslands og hinna Norðurlandanna við þessar tillögur og sagði íslensk stjórnvöld myndu gera sitt ýtrasta til að leggja sitt af mörkum.
Þeir ræddu einnig ástandið í Írak og Afganistan, og fyrirhugaðan fund utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum ríkja í sunnanverðri Afríku sem haldinn verður í Mósambík í október n.k. Aðalframkvæmdastjórinn taldi Ísland hafa mikið fram að færa á sviði þróunarmála, ekki síst á sviði sjávarútvegs í krafti sérþekkingar sinnar í þeim málaflokki.
Loks kynnti utanríkisráðherra framboð Íslands til öryggisráðsins fyrir tímabilið 2009-2010.
Með fundinum lauk heimsókn utanríkisráðherra á 58. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. september 2003