Hoppa yfir valmynd
2. október 2003 Forsætisráðuneytið

Síðasta ríkisverksmiðjan seld

Síðasta ríkisverksmiðjan seld


Í dag undirrituðu iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkisins og Íslenskt sement ehf. samning um kaup Íslensks sements ehf. á öllum hlutabréfum ríkisins í Sementsverksmiðjunni hf. Íslenskt sement ehf. er í eigu Framtaks fjárfestingarbanka hf., BM Vallár ehf., Norcem á Íslandi ehf. og Björgunar ehf. Samningurinn er gerður á grunni samkomulags sem gert var á milli þessara aðila og tilkynnt um þann 8. júlí sl.

Söluverð verksmiðjunnar er 68 milljónir króna. Í tengslum við söluna mun ríkissjóður yfirtaka eignir í eigu Sementsverksmiðjunnar hf. sem ekki tengjast rekstri hennar. Þetta eru skrifstofubygging Sementsverksmiðjunnar á Akranesi að undanskilinni einni og hálfri hæð sem áfram verður eign verksmiðjunnar, fasteignir og eignir verksmiðjunnar á Sævarhöfða í Reykjavík, hlutafé og skuldabréf verksmiðjunnar í Speli og hlutabréf í GECA hf. Kaupverð þessara eigna er samtals 450 milljónir króna. Þá mun ríkissjóður yfirtaka lífeyrisskuldbindingar Sementsverksmiðjunnar hf.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppnisstofnunar.

Sementsverksmiðja ríkisins hóf starfsemi á Akranesi árið 1958. Frá 1. janúar 1994 hefur hún verið rekin sem hlutafélag í eigu ríkisins. Um þessar mundir starfa um 65 manns hjá Sementsverksmiðjunni hf en starfsemi fyrirtækisins er afar mikilvæg fyrir Akranes og nágrannasveitarfélög. Reksturinn hefur verið erfiður á síðustu árum. Frá árinu 2000 til dagsins í dag nær uppsafnað tap verksmiðjunnar um 500 milljónum króna.

Með sölu verksmiðjunnar og yfirtöku eigna og skuldbindinga henni tengdri standa vonir til þess að rekstur Sementsverksmiðjunnar sé tryggður og þar með samkeppni á innlendum sementsmarkaði.

                                                                                   Reykjavík 2. október 2003.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta