Hoppa yfir valmynd
17. október 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðasáttmáli um verndun menningarerfða samþykktur

Aðalráðstefnu UNESCO lauk í París 17. október. Samþykktur var alþjóðasáttmáli um verndun menningarerfða eftir nokkurra ára undirbúning.



Aðalráðstefnu UNESCO lauk í París 17. október. Samþykktur var alþjóðasáttmáli um verndun menningarerfða eftir nokkurra ára undirbúning. Sáttmálinn nær til varðveislu og verndun á þeim menningararfi þjóðanna sem varðveist hefur í munnlegri geymd - erfist frá kynslóð til kynslóðar og sem felst í ýmsum siðum og venjum. Aðildarríkin skuldbinda sig eftir efnum og aðstæðum til að skrásetja menningarerfðirnar og stuðla að því á annan hátt að þær glatist ekki. Komið verður á fót heimslista sem endurspegla skal fjölbreytnina.

Að þessu sinni samþykkti aðalráðstefna UNESCO óvenjumargar alþjóðlegar yfirlýsingar og ályktanir:

  • alþjóðayfirlýsingu um erfðafræðilegar upplýsingar manna
  • alþjóðayfirlýsingu um varðveislu stafræns menningararfs
  • alþjóðaályktun um fjöltyngi og aðgang að netheimum

Þá var ákveðið að vinna að alþjóðasáttmála um menningarlega fjölbreytni, alþjóðasáttmála um lyfjaeftirlit og alþjóðayfirlýsingu um siðfræði í lífvísindum. Verða drög lögð fram á 33. aðalráðstefnu UNESCO sem haldin verður haustið 2005.

Nánari upplýsingar um aðalráðstefnuna má finna á heimasíðu UNESCO, www.unesco.org.

Aðildarríki UNESCO eru 190 eftir að Bandaríkin gengu núna aftur inn í samtökin eftir nærri 20 ára fjarveru og Austur Timor varð aðildarríki.

Menntamálaráðuneytið, 17. október 2003



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta