Hoppa yfir valmynd
21. október 2003 Dómsmálaráðuneytið

Framkvæmd Íslands á tilmælum GRECO


GRECO (ríkjahópur Evrópuráðsins gegn spillingu) samþykkti hinn 16. október sl. skýrslu um framkvæmd Íslands á tilmælum GRECO frá 2001.

Tilmæli GRECO voru þrjú: Í fyrsta lagi að lögð verði drög að áætlun gegn spillingu, í öðru lagi að styrkja starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og í þriðja lagi að lögfesta ákvæði um skyldu opinberra starfsmanna til að tilkynna lögreglu um upplýsingar um spillingarbrot sem þeir fá í starfi sínu.

Niðurstaða GRECO 16. október 2003 var sú að fyrstu tilmælin hefði Ísland uppfyllt að fullu, en önnur og þriðju tilmælin að hluta.

Hvað varðar fyrstu tilmælin, um áætlun gegn spillingu, var litið til þess að almenningur er nú meðvitaðri um spillingu en áður og að samvinna er á milli dómsmálaráðuneytisins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um að sinna þessum þætti málsins enn frekar. Voru því tilmælin álitin vera uppfyllt að fullu. Um önnur tilmælin, að styrkja starfsemi efnahagsbrotadeildar, var litið til þess að fjölgun hefði orðið á starfsmönnum deildarinnar en að hana þyrfti að efla enn frekar til að hún gæti sinnt þeim verkefnum sem væru á hennar borði með fullnægjandi hætti. Þriðju tilmælin, um lagaskyldu opinberra starfsmanna til að tilkynna um spillingarbrot, eru álitin vera uppfyllt að hluta, en sent hefur verið erindi til refsiréttarnefndar, og hún beðin um að meta kosti og galla við að lögfesta slíkt ákvæði.

Íslenskum stjórnvöldum er boðið að senda inn nýjar upplýsingar um framkvæmd tilmælanna fyrir 31. mars 2005.

Sjá skýrslu GRECO frá 2003.



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
21. október 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta