Úttekt á varnarviðbúnaðir vegna notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna
Fréttatilkynning
25/2003
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun tillögu ásamt utanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra, um að fela starfshópi embættismanna undir forystu dómsmálaráðuneytis og með aðild utanríkisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og umhverfisráðuneytis að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna hér á landi. Starfshópnum verður jafnframt falið að gera tillögur til úrbóta, með það að markmiði að viðbúnaður hér á landi verði fullnægjandi. Var tillagan samþykkt.
Í greinargerð með tillögunni til ríkisstjórnar kemur fram að varnir gegn gereyðingarvopnum á borð við eiturefna-, sýkla og geislavopn sé meðal helstu viðfangsefna ríkisstjórna vestrænna þjóða á líðandi stundu. Hættan á hermdar- og hryðjuverkum þar sem slíkum vopnum kann að vera beitt er talin ein stærsta ógn fyrir borgara hins vestræna heims nú á tímum. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag í nóvember 2002 var ákveðið að grípa til sameiginlegra aðgerða á þessu sviði með þátttöku allra aðildarþjóða, þ. ám. Íslands.
Fyrsta og mikilvægasta verkefnið er að tryggja að aðildarþjóðirnar hafi fullnægjandi innri varnir þegar hugað er að öryggi borgaranna gegn vá af þessu tagi, þ. á m. hlífðarföt, mælitæki, hreinsibúnað, lyf og læknisaðstoð. Ennfremur hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að tryggja að öll framlög borgaralegra sérfræðinga til friðaraðgerða á vegum Atlantshafsbandalagsins eða Evrópusambandsins séu háð því að viðkomandi aðilar séu m.a. búnir hlífðarfötum og mótefnum til varnar hugsanlegri notkun gereyðingarvopna og hafi kunnáttu í notkun og meðferð þeirra á sama hátt og aðrir þátttakendur.
Í greinargerðinni segir ennfremur að í ljósi þess að hér sé um nýja og varanlega ógn að ræða sem beinst getur gegn Íslandi ekki síður en öðrum vestrænum þjóðum svo og með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum stjórnvalda á þessu sviði sé mikilvægt að slík vinna verði sett í gang og tillögur til úrbóta mótaðar. Við það er miðað að starfshópurinn skili tillögum sínum í ársbyrjun 2004.
21. október 2003.