Norrænn ráðherrafundur og ráðstefna um upplýsingatæknimál
16. október 2003
Norrænn ráðherrafundur og ráðstefna um upplýsingatæknimál
Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sótti fund norrænna upplýsingatækniráðherra (MR-IT) sem haldinn var í Karlskrona í Svíþjóð 15. október sl.
Á fundinum var m.a. fjallað um úttekt sem nefndin lét gera um breiðbandsmál á Norðurlöndum. Benti fjármálaráðherra á að Ísland hefði sérstakan áhuga á því hvernig bæta megi aðgengi íbúa norðurslóða að upplýsingasamfélaginu en Ísland gegnir formennsku í Arctic council í ár og næsta ár.
Ráðherranefndin hefur stutt samstarfsverkefni um tölfræði upplýsingasamfélagsins og lá fyrir fundinum nýtt tölfræðirit: Nordic Information Society Statistics 2002. Ritið gefur glögga mynd af þeirri sterku stöðu sem Norðurlöndin öll eru í á flestum sviðum upplýsingasamfélagsins.
Ráðherra kynnti drög að formennskuáætlun MR-IT fyrir árið 2004 en þá verða Íslendingar með formennsku í ráðherranefndinni. Þema ársins verður upplýsingatækni og lýðræði.
Á ráðstefnunni Digital förvaltning och nordisk Integration (Rafræn stjórnsýsla og norræn samþætting) sem haldin var í tengslum við ráðherrafundinn hélt ráðherra erindi undir yfirskriftinni: Integration i den offentlige forvaltning i Island (Samþætting í íslenskri stjórnsýslu).
Ólafur Daðason, forstjóri Hugvits, var einnig með innlegg á ráðstefnunni.
Í tengslum við ráðstefnuna var kynning á samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila varðandi þróun tæknilausna fyrir upplýsingasamfélagið. Þetta samstarf hefur gefið góða raun og ber yfirskriftina: Telekom City (www.telecomcity.org).