Nr. 26/2003. Fundur fjármálaráðherra Norðurlandanna í Osló 27. október 2003.
Málefni NIB, Norræna fjárfestingarbankans, vógu þungt á fundinum en forsætisráðherrar Norðurlandanna fólu fjármálaráðherrunum á fundi sínum í gær að ganga frá samningum við Eystrasaltslöndin um aðild þeirra að bankanum. Þá var ákveðið að auka við lánamöguleika bankans á sviði verkefnaútflutnings.
Í samræmi við megináherslur á formennskuári Svía var ákveðið að stefna að því að bæta þjónustu við almenning um mismunandi skattareglur á Norðurlöndunum, einkum á vefnum. Einnig voru til umfjöllunar flutningar á fjármunum milli landa þar sem bæði er stefnt að því að þær taki minni tíma og verði ódýrari.
Ísland verður í forsæti í Norðurlandasamstarfinu á næsta ári. Geir H. Haarde gerði á fundinum grein fyrir áherslum Íslands á verkefnasviði fjármálaráðherranna. Meðal annars er lagt til að ráðist verði í sérstakt rannsóknaverkefni um samspil stjórnar peningamála og ríkisfjármála sem verður æ meira í brennidepli efnahagsumræðunnar.
Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður H. Árnadóttir í síma 8620028