Hugsanleg þátttaka Íslendinga í rekstri Kabúl flugvallar árið 2004
Nr. 125
frá utanríkisráðuneytinu
Í ljósi þeirrar góðu reynslu sem hefur fengist af rekstri Íslensku friðargæslunnar á alþjóðaflugvellinum í Pristína í Kosóvó, hefur ríkisstjórnin ákveðið að bjóða Atlantshafsbandalaginu að senda tíu manna hóp íslenskra sérfræðinga til að taka að sér leiðandi samræmingarhlutverk á flugvellinum í Kabúl í Afganistan frá og með næsta vori. Þess má geta að endurreisnarstarf í landinu byggist að verulegu leyti á greiðum flugsamgöngum.
Öryggissveitir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan hófu störf í ágúst sl. og þar eru nú u.þ.b. 5500 hermenn sem ætlað er að tryggja frið í höfuðborginni og næsta nágrenni. Þýskaland hefur axlað ábyrgð á stjórnun og rekstri Kabúl-flugvallar en miðað er við að þar verði breyting á næsta vor.
Samþykki Atlantshafsbandalagsins á skilgreindri rekstrartilhögun og samvinna annarra viðeigandi aðildarríkja eru forsendur tilboðs ríkisstjórnarinnar. Ef til kemur er gert ráð fyrir að Íslenska friðargæslan komi að yfirstjórn flugvallarins, flugumsjón, flugumferðarstjórn, slökkviliði, hlaðdeild og verkfræðisviði. Starfstími einstakra friðargæsluliða í Afganistan yrði þrír til fjórir mánuðir í senn.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. október 2003